Björn skrifar skýrslu um frekari þróun samstarfs Norðurlandanna

Björn Bjarnason. Ljósmynd Viljans/Erna Ýr Öldudóttir

Á fundi norrænu utanríkisráðherranna á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í vikunni náðist samstaða um tillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra um að fela Birni Bjarnasyni, fyrrverandi ráðherra, að skrifa nýja skýrslu þar sem gerðar verða tillögur um hvernig megi þróa samstarf Norðurlandanna enn frekar.

Sem kunnugt er, skilaði starfshópur undir forystu Björns, nýlega skýrslu til utanríkisráðherra um stöðu EES-samstarfsins á 25 ára afmæli EES-samningsins.

Auk þess ræddu ráðherrarnir stöðuna í Sýrlandi og samskiptin við Rússland auk loftslagsmála og útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

„Það er mér mikil ánægja að náðst hafi samstaða um frekari eflingu norræns samstarfs á alþjóðavettvangi og ekki síður að Björn Bjarnason skyldi veljast til verksins. Fáir eru eins vel í stakk búnir til að móta framtíðarsýn í þessum málum,“ sagði Guðlaugur Þór.

„Efling samstarfsins var forgangsmál í formennsku Íslands í samstarfi norrænu utanríkisráðherranna og mikilvægt að náðst hafi sterk samstaða um þessa tillögu Íslands.“

Fyrsti áfanginn í þessari vinnu var stöðuskýrsla sem forstöðumenn norrænu alþjóðastofnananna unnu og afhentu sl. vor um framkvæmd tillagna úr skýrslu Stoltenbergs frá 2009. Sú skýrsla hefur einnig verið í brennidepli í Norðurlandaráði.