Blaðamönnum með áratuga starfsreynslu sagt upp

Guðmundur Hilmarsson hefur verið blaðamaður á íþróttadeild Morgunblaðsins í 20 ár. / Facebook.

Þungt er yfir ritstjórn Morgunblaðsins í dag eftir að fimmtán starfsmönnum Árvakurs var sagt upp störfum í morgun vegna rekstrarerfiðleika fyrirtækisins. Útgáfufélag Morgunblaðsins hefur átt í samfelldum taprekstri undanfarin ár og viðskiptaritstjóri þess segir aðgerðir Blaðamannafélagsins hafa leitt til þessarar niðurstöðu.

Hagræðingaraðgerðirnar fólust í uppsögnum starfsfólks flestra deilda Morgunblaðsins. Mörg dæmi eru um að blaðamenn með áratuga starfsreynslu hafi fengið uppsagnarbréf, samkvæmt upplýsingum Viljans.

Á meðal þeirra sem sagt var upp eru Emilía Björg Björnsdóttir, yfirmaður ljósmyndadeildar, sem starfað hefur á Morgunblaðinu frá 1974. Guðmundur Hilmarsson íþróttafréttamaður fékk uppsagnarbréf, en hann fagnaði nýlega þrjátíu ára ferli í íþróttafréttamennsku. Starfsbróðir hans, Ívar Benediktsson hættir eftir 24 ár á blaðinu og Bogi Arason, sem skrifað hefur erlendar fréttir í Morgunblaðið í áratugi, fékk einnig uppsagnarbréf. Þá var Önnu Lilju Þórisdóttur varafréttastjóra sagt upp störfum eftir tæpan áratug á blaðinu.

Stefán Einar Stefánsson, ritstjóri Viðskiptamoggans.

Stefán Einar Stefánsson, viðskiptaritstjóri Morgunblaðsins og fv. formaður VR, segir að forysta Blaðamannafélagsins beri mikla ábyrgð á aðgerðunum sem gripið var til í dag.

Hann segir á fésbókinni:

„Á mánudaginn hélt formaður Blaðamannafélagsins fund með blaðamönnum sem starfa á vettvangi Árvakurs, útgefanda Morgunblaðsins og mbl.is. Þar spurði ég hann út í yfirstandandi verkfallsaðgerðir og hvort hann hefði lagt mat á hversu mörg störf gætu tapast vegna þeirra. Meðal spurninga var einnig hvort hann hefði látið framkvæma kostnaðarmat á þeim kröfum sem hann heldur fram gagnvart SA en vill ekki upplýsa okkur blaðamenn um hverjar séu.

Svar Hjálmars Jónssonar við fyrstu spurningunni var einfaldlega það að hann gæti ekki haft áhyggjur af því hversu mörg störf myndu tapast.
Í dag horfum við starfsfólk Árvakurs á eftir 15 öflugum og góðum samstarfsmönnum sem sagt er upp vegna rekstrarerfiðleika fyrirtækisins. Á morgun ætlar Hjálmar Jónsson að lama þetta sama fyrirtæki með 12 tíma löngu verkfalli. Annað svipað á að fylgja í næstu viku. Enn harðari aðgerðum hefur verið hótað í kjölfarið.

Fyrir nokkru er mér orðið ljóst að formaður Blaðamannafélagsins er ekki í neinum tengslum við raunveruleikann og því miður virðist sem samninganefnd félagsins sé það ekki heldur. Það er erfitt að bjarga mönnum frá sjálfum sér. Það er hins vegar verra þegar ekki er hægt að bjarga saklausu fólki frá heimsku þeirra.“