Blasir við öllum hvers vegna Miðflokksmenn eiga ekki samleið með framsókn

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgönguráðherra. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgönguráðherra, brá fyrir sig tilvitnun í XXX Rottweiler Hunda og ljóðagerð Erps Eyvindarsonar á Miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í gærkvöldi, þegar hann skaut föstum skotum á Miðflokkinn. Sagði hann blasa við öllum hvers vegna liðsmenn Miðflokksins hefðu ekki átt samleið með Framsókn.

Miðflokkurinn varð sem kunnugt er til, með því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fv. formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, sagði skilið við flokkinn og fjölmargir þingmenn og trúnaðarmenn með.

„Því er ekki að leyna að hart hefur verið sótt að okkur af því klofningsbroti sem átti ekki lengur samleið með okkur,“ sagði Sigurður Ingi.

Athygli vekur, að Miðstjórn Framsóknarflokksins ályktaði á síðasta fundi sínum harkalega gegn þriðja orkupakkanum og krafðist undanþágu frá honum. Ekkert hefur verið gert með þá stefnumörkun síðast, en Sigurður Ingi gerði grín að Miðflokknum vegna málsins í gær og sakaði þá um fordæmalaust og innihaldslaust málþóf.

„Við þetta brot segi ég eins og sagt er í frægu lagi: – Þér er ekki boðið.“

Formaður Framsóknarflokksins fullyrti að ekkert muni breytast hér á landi við innleiðingu orkupakkans, utan að eftirlitshlutverk Orkustofnunar muni styrkjast og hagsmunir íslenskra neytenda þannig betur tryggðir.

Sagði hann allt tal um lagningu sæstrengs til landsins gegn vilja íslenskra stjórnvalda fráleitt og líkti því við fullyrðingar um að Vegagerðin gæti ákveðið jarðgangagerð gegnum Alpana í trássi við frönsk stjórnvöld.