Rúmgóður inngangurinn í byggingu arkitektsins Hildigunnar Haraldsdóttur í miðbæ Reykjavíkur er lagður marmara frá Prag og skreyttur með lituðum glerverkum eftir þekktan íslenskan listamann. Íbúð arkitektsins á 5. hæð er búin gólfhita, AEG heimilistækjum og svölum með heillandi útsýni yfir höfnina og gamla miðbæinn.
Íbúðin er ein af 38 slíkum sem arkitektinn hannaði fyrir fyrirtæki sitt T13 ehf., og voru fjármagnaðar að hluta af stærsta banka Íslands, Landsbankanum. Aðeins 20 þeirra selst síðan þær voru settar á markað fyrir meira en fyrir ári.
„Við höfum lækkað verðið og getum ekki lækkað það meira þar sem það er nú lægra en byggingarkostnaðurinn,“ sagði Hildigunnur í viðtali í Reykjavík, við fréttamiðilinn Bloomberg.
Verður frétt Bloomberg endursögð hér í heild sinni, enda má ljóst vera að efni hennar eigi erindi við íslenska lesendur.
Sýnir tilhneigingu þjóðarinnar til að lifa um efni fram
Ísland hefur sögu um efnahagslegar upp- og niðursveiflur, og sú áhætta sem arkitektinn tók sýnir tilhneigingu þjóðarinnar til að lifa um efni fram.
Hundruð nýrra lúxusíbúða standa nú tómar, á meðan skortur er á húsnæði á viðráðanlegu verði fyrir flestallan almenning. Skv. nýlegri opinberri skýrslu vantar um 8.000 íbúðir til að takast á við eftirspurnina eftir húsnæði og gremja fer vaxandi í þjóðfélaginu, sem eitrar m.a. samningaviðræður á milli samtaka launafólks og vinnuveitenda.
Nú eru liðin rúmlega tíu ár síðan Ísland sökk niður í verstu fjármálakreppu okkar tíma, en allt að fullum bata hefur verið náð aftur. Gjaldeyrishöftum sem lögð voru á í kjölfar bankahrunsins hefur að mestu verið aflétt og atvinnuleysi er í lágmarki. Eftir nokkur ár mikils hagvaxtar, sem drifinn hefur verið áfram af miklum straumi erlendra ferðamanna, eru skuldir heimilanna m.t.t. ráðstöfunartekna 151%, sem er lægsta hlutfall á Norðurlöndum, en brúttó landsframleiðsla á mann er 30% yfir meðaltali Evrópusambandsríkjanna, skv. Hagstofu Íslands.
Eins og í Svíþjóð, Danmörku og Noregi, hefur verið líflegur húsnæðismarkaður á Íslandi þökk sé sögulega lágum vöxtum. Verð á nýjum íbúðum í lúxusflokki hækkaði um 17% milli áranna 2017 og 2018, samanborið við almenna hækkun fasteignaverðs um 3% á sama tíma skv. Íbúðalánasjóði. Verð á glæsiíbúð í miðbæ Reykjavíkur er nú allt að 836 þúsund kr. fermetrinn.
Skammtímalán til byggingaverktaka fimmtungur af lánasöfnum
Eignavöxturinn hefur aukið útlán. Skammtímalánakjör til fasteigna- og byggingarfyrirtækja stefna á sömu kjör og fyrir kreppuna, en þau eru nú fimmtungur af útlánasafni viðskiptabanka, skv. upplýsingum Seðlabanka Íslands.
Líkt og aðrir í bransanum gætu Hildigunnur og viðskiptafélagar hennar hafa valið ranga tímasetningu fyrir þetta verkefni sitt. Í nýlegri skýrslu frá Arion banka segir að húsnæðisbólan sé nú að hjaðna með „væntingum um aukið framboð“ sem stuðli að „hóflegum verðhækkunum.“
Seðlabankastjóri hefur ekki áhyggjur af misræmi á fasteignamarkaði
Á sama tíma sýnir íslenska efnahagslífið merki um hjöðnun ferðamannabólunnar. Skv. flugrekstrarfyrirtækinu Isavia er gert ráð fyrir að heildarfjöldi ferðamanna lækki um 2,4% frá hámarki síðasta árs.
Seðlabankinn spáir hagvexti upp á 1,8 prósent á þessu ári, þeim lægsta síðan árið 2012 og um einu prósentustigi undir nóvemberspá sl. árs.
Flugfélögin finna nú þegar áhrifin, og í framhaldinu er búist við að um hægist í ferðaþjónustunni, sem muni hafa áhrif á húsnæðismarkaðinn þar sem eftirspurn eftir Airbnb-leigu muni minnka. Fjársterkir aðilar sem nýttu sér veikburða íslenskan gjaldmiðil til að kaupa eignir þurfa nú að fást við styrkingu krónunnar.
Már Guðmundsson, bankastjóri Seðlabankans, kveðst ekki hafa áhyggjur af misræminu á fasteignamarkaði. En Ásgeir Jónsson, hagfræðingur við Háskóla Íslands, segir að fólk eins og Hildigunnur ættu hafa áhyggjur.
„Byggingaverktakar hafa verið að þjónusta lúxusmarkað, sem nú virðist vera meira eða minna mettaður,“ sagði hann. „Ég yrði ekki undrandi ef verð á glæsiíbúðum yrði lækkað enn frekar,“ sagði hann.
Þá vakni spurningin um hvort hagkerfið í heild geti staðist það.