Bóluefnadagatal uppfært með bjartsýnni spá þrátt fyrir ótal óvissuþætti

Frá bólusetningu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 29. desember 2020. Ljósmynd: Stjórnarráðsvefurinn.

Þótt hægt gangi með bólusetningar hér á landi og áætlanir hafi tekið breytingum vegna margháttaðra tafa, var bóluefnadagatal heilbrigðisráðuneytisins og sóttvarnalæknis enn á ný uppfært í gær í samræmi við nýjustu upplýsingar um afhendingu bóluefna gegn COVID-19.

Gert er ráð fyrir að á öðrum ársfjórðungi, þ.e. í apríl, maí og júní berist bóluefni fyrir samtals rúmlega 193.000 einstaklinga. Gangi það eftir, sem ekkert skriflegt liggur fyrir um enn, hefur Ísland þá fengið bóluefni fyrir samtals 240.000 einstaklinga frá því að bólusetningar hófust í lok desember. Til samanburðar var gert ráð fyrir bóluefni fyrir samtals 217.000 einstaklinga við síðustu uppfærslu dagatalsins þann 12. mars síðastliðinn. Þetta eru um 86% þeirra sem ráðgert er að bólusetja en alls telur sá hópur um 280.000 manns. Ekki er gert ráð fyrir að börn fædd 2006 og síðar verði bólusett, né þeir sem fengið hafa Covid-19.

Fjögur bóluefni eru með markaðsleyfi og þrjú þeirra eru nú þegar í notkun hér á landi. Þetta eru bóluefni Pfizer, AstraZeneca, Moderna og Janssen. Fyrir liggur staðfest áætlun um afhendingu þessara lyfja til loka apríl. Því er gert ráð fyrir að stórfelld breyting verði á afhendingu efnanna í maí og júní. Gert er ráð fyrir að bóluefni CureVac hljóti markaðsleyfi í byrjun maí en framleiðandi þess miðar nú við að hefja afhendingu í lok annars ársfjórðungs sem er nokkru seinna en áður var áætlað. Þá standa yfir óformlegar viðræður við Rússa um aðgengi að bóluefninu Spútnik sem þykir hafa gefið góða raun, en hefur enn ekki hlotið blessun Lyfjastofnunar Evrópu sem er forsenda leyfisveitingar hér á landi.

Í gær hófst á ný bólusetning með bóluefni frá AstraZeneca og er gert ráð fyrir að í vikunni eftir páska hafi öllum 70 ára og eldri verið boðin bólusetning.