Lyfjastofnun veitti í gærbóluefninu „COVID-19 Vaccine Moderna“ skilyrt íslenskt markaðsleyfi. Bóluefnið ver einstaklinga gegn COVID-19 og er ætlað til notkunar hjá einstaklingum 18 ára og eldri. Byggir markaðsleyfið á markaðsleyfi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, en leyfisveiting hennar byggir á meðmælum Lyfjastofnunar Evrópu. Bæði meðmælin og markaðsleyfi framkvæmdastjórnarnarinnar voru birt í gær eftir aukafund í Brussel.
Um er að ræða annað bóluefnið gegn COVID-19 sem hlýtur markaðsleyfi hérlendis, en hið fyrra var bóluefnið Comirnaty frá BioNTech/Pfizer. Yfirlestur á íslenskum þýðingum fylgiseðils og samantektar á eiginleikum lyfs stendur yfir hjá Lyfjastofnun og verða íslenskir textar birtir um leið og þeir eru endanlegir. Sérstök upplýsingasíða um bóluefnið verður einnig birt von bráðar á vef Lyfjastofnunar.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í morgun, að gera megi ráð fyrir um 10 þúsund skömmtum af bóluefninu frá Moderna fyrir marslok. Að óbreyttu eigi bóluefnin frá Moderna og Pfizer að duga til að bólusetja 8-10% þjóðarinnar á fyrsta ársfjórðungi. Það þýðir að erfitt getur verið að framkvæma þá ætlan stjórnvalda, sem forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra hafa kynnt, að meginþorri þjóðarinnar verði bólusettur fyrir mitt ár.
Sóttvarnalæknir sagði enda á fundinum í morgun, að gera megi ráð fyrir sóttvarnaráðstöfunum og takmörkunum áfram hér á landi, en eftir því sem bólusetningum vindi fram, verði ef til vill mögulegt að slaka eitthvað á í þeim efnum.