Bomba frá Umboðsmanni: Hvað sagði Seðlabankinn við fréttamenn RÚV?

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, varpaði sannkallaðri bombu á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun, er hann upplýsti um bréf sem hann hefur sent forsætisráðherra, þar sem vakin er athygli á trúnaðarupplýsingum sem honum hafa borist um samskipti Seðlabankans og Ríkisútvarpsins í svonefndu Samherjamáli, sem urðu til þess að myndatökumenn og fréttamenn RÚV voru mættir á tvo staði (í Reykjavík og á Akureyri) í sama mund og starfsmenn gjaldeyriseftirlits Seðlabankans réðust í húsleitir hjá Samherja og tengdum félögum hinn 27. mars 2012.

Sagðist Umboðsmaður líta það mjög alvarlegum augum ef opinberir starfsmenn, sem réðu yfir víðtækum valdheimildum og rannsóknarskyldum, virtu ekki trúnað og lög og reglur þar að lútandi. „Svona gera menn bara ekki,“ sagði Tryggvi Gunnarsson á fundinum í morgun.

Aðspurður sagði Umboðsmaður að liggja mætti milli hluta hvort honum væri persónulega misboðið vegna framgöngu Seðlabankans í málinu, en í sínu hlutverki væri aðalatriðið hvað honum þætti fyrir hönd þeirra almennu borgara og fyrirtækja sem ættu í hlut og fór ekki á milli mála að Umboðsmaður átelur mjög vinnubrögð Seðlabankans í málinu.

Bendir hann á í bréfi sínu að Seðlabankinn og seðlabankastjóri hafi ítrekað gefið í skyn að Samherjamenn og fleiri hefðu fyrst og fremst sloppið vegna lagatæknilegra mistaka, auk þess sem hann átaldi á fundinum í morgun þá lögfræði bankans að halda leyndum upplýsingum um afstöðu Ríkissaksóknara til meintra gjaldeyrisbrota, en þær hefðu haft lykilþýðingu í málinu.

HÉR MÁ SJÁ UPPTÖKU AF FUNDI ÞINGNEFNDARINNAR Í MORGUN.

Úr bréfi Umboðsmanns Alþingis til forsætisráðherra.