Borgaralaun juku velferð en ekki atvinnumöguleika

Velferð atvinnulausra sem þáðu borgaralaun jókst, en engin teljandi áhrif urðu á atvinnuhorfum þeirra, er niðurstaða tilraunar í Finnlandi með borgaralaun.

Borgaralaun er hugmynd um greiðslur án kvaða frá hinu opinbera til almennings, sem eiga að minnka skrifræði í velferðarkerfinu, auka sjálfstraust bótaþega, eyða fátæktargildrum og auka jöfnuð.

Greiddar voru 76.700 kr. mánaðarlega til 2.000 manna hóps atvinnulausra einstaklinga á aldrinum 25 til 58 ára, sem valdir voru af handahófi, í tilrauninni.

Markmiðið er að reyna nýjar leiðir við að útdeila félagslegum styrkjum.

Drög að niðurstöðu tilraunarinnar voru birt í lok síðustu viku af velferðarskrifstofunni Kela sem sýna að þiggjendur borgaralaunanna vörðu að meðaltali hálfum degi lengur á ári við störf, en hópur til samanburðar sem fékk þau ekki.

„Á grundvelli greiningar á ársupplýsingum, getum við sagt að á fyrsta ári tilraunarinnar hafi þiggjendur borgaralaunanna verið hvorki betri né verri, en samanburðarhópurinn, í að finna starf á almennum vinnumarkaði.“ er haft eftir Ohto Kanninen, rannsóknarstjóra hjá Vinnumálastofnun Finna.

Niðurstaðan grundvöllur áframhaldandi umræðu

Þeir sem þáðu borgaralaunin hafi þó lýst „minna stressi, minni einbeitingarörðugleikum og betri heilsu en samanburðarhópurinn,“ að sögn Minna Ylikanno, yfirmanni rannsókna hjá Kela. „Þau voru jafnframt sjálfsöruggari varðandi framtíð sína og  getu til að hafa áhrif á félagslega stöðu sína.“

Niðurstöðurnar eru taldar geta orðið grundvöllur frekari umræðu sem heimspekingar og hagfræðingar átt um aldir: Hvað gerist þegar fólk fær fé til framfærslu gefins?

Um heim allan er nú rætt hvernig eigi að fást við vaxandi ójöfnuð og hefur þetta brautryðjandaverkefni náð alþjóðlegri athygli hagfræðinga, félagsfræðinga og milljarðamæringa á borð við Mark Zuckerberg og Elon Musk.

Heimild Bloomberg.