Borgarlínan þrengir að umferðinni og eykur teppur í stað þess að losa þær

Það er fundað dagana langa á þingi, enda fáir dagar eftir samkvæmt endurskoðaðri starfsáætlun eftir Covid-19 og mörg mál sem bíða afgreiðslu. Athygli vekur að þingmenn Miðflokksins hafa rætt samgönguáætlun samfellt í tvo daga og voru í gær sakaðir um málþóf. Viljinn ræddi við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann flokksins og fv. forsætisráðherra, og spurði hvort langar ræður nú væru fyrst og fremst merki um andstöðu þingmanna flokksins við borgarlínuna?

„Við erum vissulega mótfallin borgarlínuáformunum en við gerum hins vegar athugasemdir við fjölmargt fleira í samgönguáætluninni. Ég hef t.d. talað mikið um innanlandsflugið, það er sótt að því úr ýmsum áttum og fjárskortur gegnumgangandi þrátt fyrir yfirlýsingar um eflingu innanlandsflugs. Samgöngunefndin, undir öruggri forystu formannsins, hefur gert verulegar breytingar á áætluninni til að bæta hana en samt hangir meirihlutinn á mörgum vonlausum atriðum.“

Hvers vegna er ykkur svona í nöp við borgarlínuna?

„Borgarlínan snýst í raun um að ríkið greiði tugi milljarða og leggi ný gjöld á vegfarendur á höfuðborgarsvæðinu til að ráðast í framkvæmdir sem þrengja að umferðinni og auka umferðarteppur í stað þess að losa þær. Þetta telja sumir vera kost því þá neyðist fólk til að nýta sér almenningssamgöngur í auknum mæli. Þetta er því neyslustýring af verstu sort. Það er hægt að bæta almenningssamgöngur á miklu ódýrari og betri hátt. Svo þarf auðvitað að ráðast í löngu tímabærar lagfæringar á samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins.“

Snýst ekki samgöngusáttmálinn líka um það, þ.e. að ráðast í vegaframkvæmdir sem hafa beðið?

„Þetta er u.þ.b. eitt meginverkefni í hverju sveitarfélagi, verkefni sem er ekkert því til fyrirstöðu að ráðast í óháð borgarlínunni. En hún virðist vera lausnargjaldið sem ríkið á að greiða fyrir að fá að ráðast í aðrar framkvæmdir. Það hefur mjög lítið gerst í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu frá því að gert var samkomulag um framkvæmdastopp gegn því að ríkið styrkti Strætó um milljarð á ári. Þetta átti að auka nýtingu á strætó úr 4% í 8% en árangurinn varð enginn og á sama tíma versnaði umferðin til mikilla muna. Nú vilja menn endurtaka mistökin og bæta í með því að þrengja að umferðinni.“

En þarf ekki að bæta almenningssamgöngur svo að fleiri nýti þær og dregur það þá ekki úr umferð?

„Í fyrsta lagi gerir hin bjartsýna spá sem borgarlínan byggir á bara ráð fyrir að nýting almenningssamgangna verði komin úr 4% í 12% árið 2040 og að samt muni umferðin aukast. Þótt þetta séu 20 ár eru líkurnar á að 12% spáin rætist mjög takmarkaðar. Reykjavík er ekki Amsterdam og það þarf að hanna samgöngukerfi sem tekur mið af eðli borgarinnar en ekki einhverra evrópskra borga sem byggðist upp á miðöldum.“

Ertu að segja að það sé ekki hægt að læra af reynslu erlendra borga hvað varðar almenningssamgöngur?

„Jú það er sannarlega hægt að læra af reynslu annarra borga og reynslan er sú að borgarlínuverkefni hafa hvað eftir annað farið úr böndunum, jafnvel í mun þéttbyggðari borgum en Reykjavík. Eins og Sigríður Andersen benti á í umræðu um málið sögðu sérfræðingar í Freiburg borgarfulltrúum að það gengi ekki upp að fara í svona verkefni fyrr en notkun almenningssamgangna væri komin í 40%, það vakti furðu þeirra að borg þar sem hlutfallið er 4% væri að velta þessu fyrir sér.

Það eru endalaus dæmi um að svona verkefni hafi farið langt fram úr kostnaðaráætlun, frá Stavangri í Noregi til Höfðaborgar í Suður Afríku. Vandamálin í Edinborg, sem átti að vera einhvers konar fordæmi fyrir Reykjavík, urðu fræg. Stutt borgarlína frá flugvellinum tafðist og fór endalaust fram úr áætlun. Svo var gerð úttekt á því hversvegna þetta hefði gerst og kostnaðurinn við úttektina fór líka langt fram úr áætlun. Dettur einhverjum í hug að borgin sem eyddi hálfum milljarði í að gera upp bragga muni gera þetta betur?

Svo er það rekstrarkostnaðurinn, enginn virðist hafa hugmynd um það hvað það muni kosta að reka tvöfalt strætisvagnakerfi. Þetta er uppskrift að endalausum vandamálum og gjaldtöku til þess eins að þrengja að umferðinni í stað þess að fara betri og hagkvæmari leiðir fyrir almenningssamgöngur og aðra umferð.“