„Fólki hefur víða þar sem við höfum farið í heimsókn frá í vor, verið uppálagt að tala ekki við okkur, en það fer svolítið eftir deildum og sviðum borgarinnar hvar það er,“ segir Egill Þór Jónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í samtali við Viljann.
Egill Þór vék að þessari stöðu á opnum fundi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Valhöll í vikunni, þar sem þeir sátu fyrir svörum fundargesta og Viljinn vildi vita meira um málið.
„Það sem okkur finnst einmitt svo dýrmætt, það er að geta átt samtal við starfsfólk borgarkerfisins, til að komast að því hvað má gera til að betrumbæta þjónustuna við borgarbúa og starfsumhverfi starfsmanna borgarinnar,“ segir Egill Þór.
Fólk tekið á teppið af yfirmönnum
Egill Þór nefnir dæmi um að fólk hafi verið „tekið á teppið“ hjá yfirmönnum fyrir að tala við þau. „Fólk er hrætt, það vill auðvitað ekki lenda í vandræðum í vinnunni,“ segir hann og neitar að gefa upp hvar eða hverjir hafi átt slíkt samtal við borgarfulltrúa minnihlutans, enda hafi flestir óskað eftir trúnaði.
Hann segir að borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins hafi leitað með áhyggjur sínar, vegna facebook-færslu Stefáns Eiríkssonar, borgarritara, í lokuðum hópi starfsmanna Reykjavíkurborgar, til Stefáns, sem hafi vísað honum á að ræða það við borgarstjóra, Dag B. Eggertsson.
Þar hafi borgarfulltrúinn fengið þau svör að fundar með borgarstjóra yrði fyrst að vænta eftir þrjár vikur.