„Borgarstjóri er ekki yfirmaður kjörinna fulltrúa, heldur kjósendur“

„Nú á að skipa sérstakan rannsóknarrétt í ráðhúsinu á pólitískum grunni. Dómarar réttarins eiga að vera pólitískt kjörnir fulltrúar sem fara með embætti borgarstjóra og formanns borgarráðs,“ segir Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, í samtali við Viljann, en á fundi borgarráðs í gær lagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fram tillögu sem var frestað, þar sem gert er ráð fyrir að settur verði upp bráðabirgðaverkferill og leiðir til úrlausna vegna kvartana starfsfólks Reykjavíkurborgar vegna framgöngu kjörinna fulltrúa í þeirra garð.

Vigdís segir að svo virðist sem borgarstjóri skilji ekki vinnuréttarsamband kjörinna fulltrúa við Reykjavíkurborg.

„Borgarstjóri er ekki yfirmaður kjörinna fulltrúa, það eru kjósendur í Reykjavík. Að setja upp sérstakt kvörtunarborð fyrir starfsfólk Reykjavíkur vegna kjörinna fulltrúa er fordæmalaust,“ segir hún og vísar til þess að í bókun, sem hún hyggist leggja fram vegna málsins, komi fram að kjörnir fulltrúar í minnihluta hverju sinni hafi sárasjaldan samskipti við starfsfólk borgarinnar. Öðru máli gegni um embættismenn sem sitji fundi ráða og þurfa að svara fyrir erfið mál meirihlutans.

„Það er skylda kjörinna fulltrúa að gagnrýna málflutning þeirra á fundum sem því miður eru allir lokaðir almenningi. Rannsóknarréttartillagan er ekki borin uppi af tilvísunum í lög eða reglugerðir og því algjörlega marklaus. Hún er einungis aum tilraun til að þagga niður í gagnrýnum röddum kjörinna fulltrúa, sem eru að vinna þá skyldu sína að benda á og útskýra alla þá áfellisdóma sem á borginni hafa dunið undanfarin misseri af eftirlitstofnunum ríkisins,“ segir Vigdís.

Vettvangur fyrir kvartanir

Í greinargerð með tillögu borgarstjóra segir að verkferlinum sé ætlað að 
skapa vettvang fyrir starfsfólk Reykjavíkurborgar til að koma ábendingum eða kvörtunum á framfæri vegna framgöngu kjörinna fulltrúa í þeirra garð.

„Jafnframt eru hér skilgreindar þær skyldur sem hvíla á framkvæmdastjóra sveitarfélagsins að koma ábendingum og kvörtunum í farveg gagnvart þeim kjörnu fulltrúum sem í hlut eiga. Sá farvegur miðar að því að skapa vettvang sáttar og aukins trausts í samskiptum starfsfólks Reykjavíkurborgar og kjörinna fulltrúa. Þessi verkferill er til bráðbirgða og mikilvægt er að stjórnsýslan og kjörnir fulltrúar endurskoði gildandi siðareglur, m.a. með hliðsjón af áliti siðanefndar Sambands íslenskra sveitafélaga frá 14. desember 2018.

Stefán Eiríksson borgarritari hefur gagnrýnt framgöngu kjörinna fulltrúa. / Reykjavíkurborg.

Starfsfólk Reykjavíkurborgar á rétt á því að starfa í öruggu og heilsusamlegu starfsumhverfi. Mikilvægt er að innan vinnustaðarins sé farvegur til að tryggja að hægt sé að leysa vandamál er ógna slíku starfsumhverfi. Starfsfólk sem vill koma á framfæri kvörtun vegna framgöngu kjörins fulltrúa gagnvart einum eða fleirum úr hópi starfsfólks Reykjavíkurborgar getur sent tilkynningu um slíkt til síns yfirmanns, til mannauðsþjónustu viðkomandi sviðs eða eineltis- og áreitniteymis sviðsins. Einnig er unnt að leita með slíkt til miðlægrar mannauðsdeildar,“ segir ennfremur í greinargerðinni.

Þar kemur einnig fram, að mannauðsþjónusta eða eineltis- og áreitni teymi fari yfir kvörtun eða ábendingu og meti í samráði við yfirmann og starfsfólk í hvaða ferli skul setja málið. Falli umrædd kvörtun eða ábending undir þennan verkferil skui teymið koma málinu til borgarstjóra og formanns borgarráðs.

„Borgarstjóri og formaður borgarráðs skulu boða hlutaðeigandi borgarfulltrúa til fundar við sig. Á þeim fundi skal viðkomandi gerð grein fyrir fyrirliggjandi erindi. Borgarstjóri og formaður borgarráðs skulu að loknum slíkum fundi taka saman minnispunkta frá fundinum þar sem greint er frá því sem fram fór á fundinum og viðbrögðum hlutaðeigandi kjörins fulltrúa við því sem þar kom fram. Skulu þeir minnispunktar bornir undir hlutaðeigandi til athugasemda. Borgarstjóra og formanni borgarráðs er heimilt að leita til utanaðkomandi ráðgjafa við meðferð slíkra mála.
Að lokinni yfirferð skal borgarstjóri greina hlutaðeigandi frá niðurstöðu máls. Borgarstjóri og formaður borgarráðs skulu eftir fremsta megni leita að leiðum til sátta í samtölum sínum við málsaðila með það að markmiði að byggja að nýju upp traust í samskiptum og því hvernig farið er með lýðræðislegt umboð innan sveitarfélagsins,“ segir ennfremur í greinargerðinni.