Borgarstjóri er rúinn trausti og þarf að axla ábyrgð: Lög voru þverbrotin

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.

Þótt skýrsla Innri endurskoðunar í braggamálinu hafi verið birt fáeinum dögum fyrir jól, hefur hún ekki týnst í jólaösinni, enda „var hún svört, skýr og sláandi: Lög voru þverbrotin og allt fór úrskeiðis frá upphafi til enda,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.

„Staðfest er að borgarstjóri sýndi af sér umfangsmikla vanrækslu. Ekki veit ég dæmi um að jafnmikill áfellisdómur hafi áður komið fram á hendur sitjandi borgarstjóra frá Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar.
Borgarskjalasafn hefur bent á að eyðing gagna sé alvarlegt lögbrot, en í braggamálinu var skjalavarsla í molum og tölvupóstum eytt með ólöglegum hætti,“ segir hann.

Eyþór segir að Dagur B. Eggertsson segist finna til ábyrgðar, sem sé ansi létt í hendi. Borgarstjórinn í Róm hafi sagt af sér vegna tveggja milljóna króna risnukostnaðar og séu þó ítölsk stjórnmál ekki hátt skrifuð.

Þögn annarra flokka í meirihlutanum er ærandi

Það vekur athygli að lítið heyrist í samstarfsflokkum Samfylkingarinnar í meirihlutanum, segir Eyþór. Þögn þeirra sé ærandi.

„Innri endurskoðun birti skýrslu í október síðastliðnum um óheimila framúrkeyrslu í viðhaldsverkefni hjá Félagsbústöðum, en það félag er hluti af samstæðu borgarinnar.  Strax og sú skýrsla var birt sagði framkvæmdastjóri Félagsbústaða af sér. Það er skýrt fordæmi.

Ég sagði þann 11. október að borgarstjóri bæri ábyrgð á verkinu, enda mælti hann fyrir því, skrifaði undir eina samninginn og væri framkvæmdastjóri borgarinnar.  Nú er það staðfest af stofnunum borgarinnar sjálfrar og fleiri hafa tekið undir þessi sjónarmið.

Það er því ljóst að borgarstjóri er rúinn trausti og þarf að sýna sem æðsti embættismaður borgarinnar hvernig hann ætlar að axla sína ábyrgð.
Það er hið eina rétta,“ segir Eyþór Arnalds.