Eftir Ernu Ýr Öldudóttur;
Síðustu vikur og mánuðir hafa verið uppfullir af fréttum um ýmislegt sem hefur farið úrskeiðis í ákvörðunum og framkvæmd hjá Reykjavíkurborg undanfarið, og má þar nefna skólpmengun við Ægissíðu, kostnaðarsama endurgerð braggans í Nauthólsvík, val á fokdýru og að því er virðist óraunhæfu, glerhjúpuðu pálmatrjáalistaverki í fyrirhugaðri Vogabyggð og að lokum misheppnuð framkvæmd kosningahvetjandi verkefnis sem borgin réðst í fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar.
Ég ætla ekki að fara að draga það í efa að hjá Reykjavíkurborg starfi stálheiðarlegt fólk sem gerir sitt besta dag hvern í þjónustu við borgarbúa, og ekki vil ég gera neinum upp illan ásetning. En hvað gæti hugsanlega valdið því að svona brösuglega gengur að sýna fram á skynsamlega ákvarðanatöku og í framhaldinu, vönduð vinnubrögð og nýtingu á borgarsjóði við framkvæmd þeirra, sem framkvæmdastjórinn, borgarstjórinn í Reykjavík, ber ábyrgð á?
Það fyrsta sem maður rekur augun í við að skoða skipurit Reykjavíkurborgar, er að þau embætti borgarinnar, sem eru til þess fallin og ættu að geta, veitt borgarstjóranum aðhald, eru skipuð undir hann sjálfan. Þessi embætti eru borgarritari og borgarlögmaður.

Spyrja má hvers vegna innri endurskoðun fékk ekki að skoða tölvupósta borgarstjóra við rannsókn braggamálsins og má þess vegna efast um sjálfstæði Innri endurskoðunar gagnvart borgarstjóra við úttekt málsins.
Það má því vera ljóst að allir þessir aðilar eru í veikri stöðu til að sinna aðhaldshlutverki gagnvart borgarstjóra, eins og berlega sýndi sig þegar innri endurskoðun borgarinnar fékk ekki að skoða tölvupósthólf borgarstjórans við rannsókn hennar á braggamálinu, heldur tók hann það að sér að gera það sjálfur.
Í annan stað virðist minnihlutanum í borgarstjórn og í borgarráði vera gert erfitt fyrir, af síðasta og núverandi meirihluta borgarstjórnar og borgarráðs, að sinna sínu hlutverki, sem er m.a. að veita meirihlutanum og borgarstjóra aðhald, en fram hefur komið að fulltrúar minnihlutans hafa mátt sitja undir snautyrðum og dónaskap meirihlutafulltrúa á fundum ásamt því að fundarstjórn forseta borgarstjórnar o.fl. hefur náð að útiloka að erindi þeirra komist á dagskrá og fáist flutt með eðlilegum hætti.
Í þriðja lagi virðist vera erfitt fyrir almenning, eftirlitsstofnanir og fjölmiðla að fá upplýsingar og svör innan úr borgarkerfinu, og það þrátt fyrir að borgin sé með upplýsingastjóra og yfir tug upplýsingafulltrúa í vinnu.
Nýjasta dæmið sést í úrskurði eftirlitsaðila Persónuverndar, sem átöldu Reykjavíkurborg harðlega vegna ófullnægjandi upplýsingagjafar í tengslum við frumkvæðisrannsókn ríkisstofnunarinnar á kosningahvetjandi verkefni borgarinnar fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, en niðurstaðan varð að lög voru brotin.
Fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Kjartan Magnússon, gerði t.a.m. ítrekaðar tilraunir til að fá að leggja fram tillögu, ýmist í borgarráði eða borgarstjórn, um að óskað yrði formlega eftir áliti Persónuverndar á verkefninu í margar vikur áður en það komst í framkvæmd, en mætti við það mótþróa og ruddaskap ásamt hindrunum í formi frestana og frávísana úr hendi borgarstjóra og annarra fulltrúa þáverandi meirihluta.
Í starfi mínu sem blaðamaður Morgunblaðsins í fyrra, reyndist það oft erfitt og tímafrekt að nálgast upplýsingar og ná tali af þeim aðilum hjá Reykjavíkurborg sem sitja áttu fyrir svörum um ýmisleg málefni er varða almenning, á meðan fulltrúar fyrirtækja, félaga, stofnana, ríkisins og annarra sveitarfélaga svöruðu spurningum og gáfu upplýsingar tiltölulega greiðlega og tafarlaust, er eftir því var óskað. Algengt var að blaðamaðurinn neyddist til að bíða lon og don í símanum í röð á skiptiborði borgarinnar, til þess eins að fá að vita að eini aðilinn sem honum var leyfilegt að tala við varðandi fyrirspurnina hafi verið vant við látinn. Verður það að teljast með nokkrum ólíkindum, þar eð yfir tíu þúsund manns vinna hjá Reykjavíkurborg.
Eitt af þeim verkefnum sem ég fékk á Morgunblaðinu var að afla upplýsinga um verkefni borgarinnar um að auka kosningaþátttöku hópa fyrir síðustu kosningar, en furðulega fyrirhafnarsamt var að ná í einhvern sem mátti svara fyrir það og lítið var um gagnlegar upplýsingar og svör, loksins þegar það hafðist. Komu átölur Persónuverndar í úrskurði sínum, um takmarkaða og lélega upplýsingagjöf borgarinnar vegna málsins, því blaðamanni lítið á óvart.
Þegar allt sem á undan er rakið er sett í samhengi, þá er auðvelt að sjá að hjá þessu stærsta sveitarfélagi landsins hefur verið byggt rammgert virki utan um stjórnendur og verkefnin þeirra til að koma í veg fyrir umfjöllun, aðhald og gagnrýni. Lítill skilningur virðist hafa verið, hjá fyrrverandi og núverandi meirihluta ásamt borgarstjóra, á því að aðhald og gagnrýni geti ef til vill verið óþægileg til skamms tíma en leiði þó að lokum til góðrar niðurstöðu fyrir alla.
Borgarstjóri og meirihlutinn virðast eiga í erfiðleikum með að átta sig á þeirri einföldu staðreynd, að þegar tekið er tillit til þekkingar og sjónarmiða þeirra sem kunna að vera þeim ósammála eða gera athugasemdir, þá geti það leitt sjálfkrafa til heilbrigðari stjórnunar og farsællar lokaniðurstöðu, sem þau gætu á endanum orðið stolt af.
Höfundur er blaðamaður á Viljanum.