Borgin veitir auknu fjármagni til íþrótta vegna COVID-19

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Borgarráð samþykkti í gær tillögu borgarstjóra um að veita íþrótta- og æskulýðsfélögum í Reykjavík sérstakan stuðning upp á 135 milljónir króna vegna tekjutaps sem skapast hefur vegna kórónuveirufaraldursins.

Covid-19 faraldurinn hefur haft fjölþætt og neikvæð áhrif á rekstur og starfsemi íþrótta- og æskulýðsfélaga í borginni.  Borgarráð samþykkti í lok mars tillögur um aðgerðir og viðspyrnu í menningar-, íþrótta- og listalífi í borginni í samvinnu við félög þessara greina.

Hafa ÍTR og íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) verið í samskiptum við íþrótta- og æskulýðsfélög í borginni til að kanna og greina áhrif Covid-19 faraldursins á starfsemi félaganna. Horft var sérstaklega til tekjutaps félaganna vegna útleigu á eigin mannvirkju, aukins kostnaðar vegna reksturs barna- og unglingastarfs og viðhaldsóska félaga vegna eigin mannvirkja.

Niðurstaðan var sú að samkomubann vegna Covid-19 hefur haft og mun hafa fjölbreytt og neikvæð áhrif á rekstur og starfsemi félaganna.

„Stuðningurinn er hugsaður til að koma til móts við íþróttafélögin í borginni vegna aðstæðnanna sem skapast hafa vegna kórónuveirufaraldursins. Hann kemur til viðbótar við framlög ríkisins sem farið hafa í gegnum ÍSÍ. Ég vil þakka íþróttahreyfingunni, iðkendum og foreldrum fyrir að taka frábærlega á málum við erfiðar aðstæður og Íþróttabandalagi Reykjavíkur og ÍTR fyrir glögga greiningu á stöðunni,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

ÍTR og ÍBR lögðu því sameiginlega til við borgarráð að veittar yrðu 80 milljónir króna til að styrkja íþrótta- og æskulýðsfélög í borginni til að vega á móti tekjutapi vegna Covid-19. Ennfremur að veittar yrðu 55 milljónir króna til að mæta viðhaldsóskum félaganna. Samtals er stuðningurinn því 135 milljónir króna.

Þá var samþykkt að ÍTR og ÍBR verði falið að útfæra tillögur að styrkveitingum til einstakra félaga.