Borinn til valda af samfélagsmiðlum, en stjaksettur af þeim nú

STEPHEN MARCHE  birti eftirfarandi pistil um stöðuna í kanadískum stjórnmálum í tímaritið Foreign Policy á dögunum:

Í byrjun embættisferils síns, kynnti forsætisráðherrann, Justin Trudeau, til sögunnar kynjajafnaða ríkisstjórn, tileinkaða fjölbreytileikanum, í anda nýja frjálslynda vinstrisins í Kanada. Þegar hann var spurður út í þessa uppstillingu svaraði hann: „Vegna þess að það er árið 2015“ — og snjallt svarið barst hratt um alla netheima og geima. En nú er komið árið 2019 og ríkisstjórn Trudeu riðar til falls í miðju hneykslismála, leikriti sem spilast í beinni útsendingu á samfélagsmiðlum og hefur sem lamað þjóðina.

Trudeau hefur verið stjaksettur á samfélagsmiðlunum, þeim hinum sömu og báru hann á valdastólinn, en eðli frjálslynda vinstrisins á þeim miðlum virðist vera að tortíma sjálfu sér.

SNC-Lavalin hneykslið hefur enn ekki náð hæstu hæðum alþjóðlegrar umfjöllunar, þar taka aðrir mikið pláss svo sem Donald Trump og Benjamin Netanyahu, en engu að síður er málið alvarlegt. Til að gera langa sögu stutta, þá starfa 8.500 manns hjá  verkfræðifyrirtækinu SNC-Lavalin í Quebec-fylki, og tugþúsundir til viðbótar um heim allan. Fyrirtækið hefur setið undir stöðugum en trúverðugum ásökunum um spillingu, bæði heima fyrir og erlendis. 

Þegar sækja átti félagið til saka vegna meintrar spillingar í Líbýu var dómsmálaráðherranum, Jody Wilson-Raybould, gert að velja á milli saksóknarinnar, sem hefði líklega lagt fyrirtækið í rúst, eða að semja um frestun málsins.

Wilson-Raybould bar vitni um að forsætisráðherrann hafi með óviðeigandi hætti þrýst á hana að fresta málinu til að vernda störf (og atkvæði) hjá SNC-Lavalin í Quebec-fylki. Þegar hún neitaði var hún lækkuð í tign. Trudeu hefur neitað að um óviðeigandi þrýsting hafi verið að ræða.

Mörg hneyksli af þessari stærðargráðu er að finna í kanadískri stjórnmálasögu. Trúarmálaráðherra í ríkisstjórn Trudeau, Stephen Harper, mútaði þingmönnum og ýmsir vankantar voru á kjöri hans. Hann varðfyrsti ráðherrann í sögu Kanada til að falla formlega í ónáð á þinginu.

Síðustu ár fyrrum forsætisráðherrans og vinstri mannsins Jean Chrétien, í embætti voru lituð af siðlausu framferði meðlima ríkisstjórnar hans. Brian Mulroney, íhaldssamur forveri hans, tók við um 350.000 Bandaríkjadala að núvirði í reiðufé á hótelherbergjum.

SNC-Lavalin hneykslið virkar því nokkuð hversdagslegt fyrir utan eitt lykilatriði: Meðlimur í hans eigin ríkisstjórn fletti ofan af því.

Stórkostleg pólitísk leiksýning

Vitnisburður Wilson-Raybould var, á kanadískan mælikvarða, stórkostleg pólitísk leiksýning. Lokaorð hennar við vitnisburðinn var fullkomið tíst á samfélagsmiðlinum Twitter: „Ég er af löngum kvenlegg mæðraveldis og ég er boðberi sannleikans.“

Margir af kollegum hennar í frjálslynda vinstriflokknum Liberal Party, og í ríkisstjórninni, lýstu yfir stuðningi við hana á samfélagsmiðlum. Svar almennings var á hinn bóginn frekar óljóst og nokkrir borgarstjórar frá Quebec-fylki lýstu yfir áhyggjum, þó aðeins af fyrirtækinu SNC-Lavalin vegna starfanna.

Jody Wilson-Raybould kemur fyrir dómsmálanefnd kanadíska þingsins á dögunum.

Ímyndum okkur ef málið væri á hinn veginn: Ef 8.500 kanadísk störf væru í hættu til að varðveita orðstír Líbýu, þá væri erfitt að ímynda sér skort á heilagri vandlætingu Kanadamanna.

Sjálfspíslarvætti ríkisstjórnar Trudeau hefur lengi verið í vændum og á sér rót í hvernig hún komst til valda, í gegnum sýndardyggðir og samfélagsmiðla. Trudeu þykir stórmeistari ímyndarstjórnmálanna, sem komu honum á forsíður glanstímarita á borð við New York magazine. En ímyndarstjórnmál eru með verðmiða sem þarf að greiða með syndleysi, sem Trudeu hefur ekki lengur efni á.

Togstreita milli ímyndar og valds

Togstreita á milli ímyndar og valds hefur myndast í embættistíð Trudeu. Jody Wilson-Raybould sjálf varð glæst dæmi um það. Hún er fyrrum svæðisstjóri indjána og höfðingjadóttir, en þegar hún sótti þing frumbyggja (First Nations) árið 2016, þurfti hún sem dómsmálaráðherra gefa þar eftirfarandi yfirlýsingu: „Eins mikið og ég myndi vilja kasta Indjánalöggjöfinni (Indian Act) á bál sögunnar, svo indjánar fái risið úr öskunni, þá er það ekki hagnýtur valkostur — því einfeldningsleg leið, eins og að samþykkja UNDRIP [Yfirlýsing Sameinuðu þjóðanna um réttindi frumbyggja] sem kanadísk lög, er ógerleg og með fullri virðingu, þá væri það truflun á pólitísku starfi að reyna það einu sinni.“ 

Mótsögnin var augljós: Pólitísk sýndarsiðprýði hefði ætlast til samþykkis á UNDRIP. En Wilson-Raybould gat það ekki einmitt vegna þess að hún hafði völdin til þess. Ó, þvílík kvöl og pína sem það hefur verið – maður sér það á orðalaginu – að vera sú sem þarf að bera ábyrgð á að halda hinum illu Indjánalögum áfram í gildi.

Samskonar spennu var að finna þegar umhverfisráðherrann, Catherine McKenna, tísti og skrifaði á Facebook um kynjaða eyðileggingu umhverfisins. Hún vitnaði í rannsókn sem sýndi að karlar hafi neikvæðari áhrif á loftslagið en konur. Hún vildi nota stöðu sína til að hafa áhrif og sagði: „Ég berst fyrir konur og umhverfið.“

En samtímis var hún ábyrg fyrir uppsetningu stóru olíuleiðslunnar frá söndunum í Alberta-fylki til markaða heimsins. Hvernig á röksemdafærslan hennar þá að halda?

Stjórn ríkisins er ekki jafn einföld og TED-spjall gæti gefið til kynna.

Auðvelt að standa á hliðarlínunni

Allir með þekkingu á stjórnmálasögu og -kenningum vita að dyggðir og völd fara ekki alltaf saman. Að standa á hliðarlínunni og benda fingri er auðvelt.

Af hliðarlínu samfélagsmiðlanna þarf ekki að spyrja að því hvort að UNDRIP sé nothæft. Það þarf bara að garga að það sé skömm að Indjánalögunum, sem er alveg rétt. Það þarf bara að kalla þá sem eru ósammála þér karlrembur og hunsa málamiðlanir sem eru notaðar til að reyna að þoka málum í rétta átt. Samfélagsmiðlarnir leyfa undursamlega og með skrumskælingu, að horft sé framhjá vandamálinu við að aðskilja dyggðir og völd. 

Wilson-Raybould er stálheiðarleg manneskja, það efast enginn um. Ekki skiptir máli hvort hún sé óverðug til valda eða hvort völd séu hennar óverðug, niðurstaðan verður sú sama. Það eru kosningar í lok ársins og Wilson-Raybould styður nú Andrew Scheer, leiðtoga íhaldssamtaka, sem hefur engar fyrirætlanir varðandi loftslagsbreytingar og var púaður niður síðast þegar hann kom á ráðstefnu frumbyggja.

Íhaldsmenn hafa aldrei þóst vera „góða fólkið“ á samfélagsmiðlunum. Þeir vilja berjast fyrir kanadískum störfum og þeir munu svo sannarlega ekki þykjast vera góða fólkið.

Farsæl vinstri stjórn

Ríkisstjórn Trudeau þykir ein farsælasta frjálslynda vinstri stjórn heimsins. Daginn áður en Wilson-Raybould gaf vitnisburð sinn, tilkynnti Bloomberg-fréttaveitan að fátækt barna væri með lægsta móti í Kanada síðan árið 2002.

Ríkisstjórnin er talin verja síðasta vígi vel heppnaðs fjölmenningarsamfélags og hefur staðið með flóttamönnum. Hún hefur endursamið við óðan mann um NAFTA og lögleitt marijúana, um leið og landið hefur vermt annað sætið yfir hæsta hagvöxt í G-7 ríkjunum mestallt tímabilið. Þetta er umtalsverður árangur, en skiptir engu máli pólitískt séð, þar sem ríkisstjórnin byggði orðstír sinn á sandi upphrópana „góða fólksins“ á samfélagsmiðlum, sem taka sýndarmennsku dyggða fram yfir haldbærar niðurstöður.

Hægri menn standa ekki frammi fyrir þessum vandamálum. Þeir gorta sig jafnvel af grófleika valdsins og kjósendur þeirra kunna að meta hreinskilnina.

Jafnvel þó að Trudeau sigri kosningarnar öðru sinni, verður staða hans ávallt veik. Sýndardyggðir eru hverfular, því glansmyndir fölna þegar gljáinn nuddast af. Næsta spurning verður hvort hæfileikar Trudeau á samfélagsmiðlum nái að færa honum sigur á nýjan leik.

Pólitískur slagkraftur samfélagsmiðlanna, jafnvel þó hann innihaldi banabita sjálfspíslarinnar, er svo gríðarlegur, að hefðbundið hneyksli eins og SNC-Lavalin málið gæti fljótt fallið í gleymskunnar dá.

Annað sem gæti hjálpað Trudeau er hræsnin í kjarna kanadísku þjóðarinnar. Að þykjast öðrum æðri skilgreinir pólitíska hugsun okkar, ekki síst í samskiptum við önnur lönd, og innst inni dýrkum við eineltistuddann. Við gætum viljað líta út fyrir að vera til fyrirmyndar, en við viljum líka að fá bullu til að berjast fyrir störfin okkar og standa uppi í hárinu á ímynduðum óvinum í Saudi Arabíu og víðar.

Það gildir jafnt á tímum samfélagsmiðla sem fyrr.