Boris ætlar í styrjöld við mömmuríkið

Boris Johnson.

Boris Johnson, f.v. borgarstjóri Lundúna og utanríkisráðherra, sem nú sækist eftir því að verða formaður Breska íhaldsflokksins, hefur lýst yfir stríði gegn mömmuríkinu (Nanny State) í Bretlandi. Frá þessu greinir Sky News.

Johnson ætlar sér að endurskoða og stöðva frekari lagasetningu gagnvart „syndasköttum“, sem lagðir eru á saltaðar, feitar og sykraðar matvörur, og heldur því fram að þessir skattar séu notaðir til að „berja á fátækum“.

Jamie Oliver vill mjólkurhristingsskatt

Víst þykir að andstæðingur hans í baráttunni um formannssætið, Jeremy Hunt, sem áður gegndi embætti heilbrigðisráðherra og lagði sykurskattinn í Bretlandi á, muni andæfa þessum áformum hans. Eins þykir líklegt að Johnson og stjörnukokkurinn Jamie Oliver muni fara í hár saman yfir „mjólkurhristingsskattinum“ sem Oliver hefur heimtað en Johnson ætlar sér að stöðva.

Boris hefur gagnrýnt skólamáltíðaherferðir Olivers og sagt: „Fengi ég að ráða mundi ég losa okkur við Jamie Oliver og segja fólki að borða það sem það langar.“ Boris, sem þykir líklegur til að hreppa formannsstólinn í Íhaldsflokknum eftir þrjár vikur, vill setja af stað endurskoðun á því hvort syndaskattar hafi nokkur áhrif yfir höfuð og hvort þeir komi verst niður á þeim með lágar tekjur. Hann ætlar sér einnig að stöðva nýja skattlagningu eins og mjólkurhristingsskatt Olivers þar til sú endurskoðun hefur farið fram, og nefnir BREXIT sem tækifæri til að endurskoða skattastefnu í Bretlandi.

„Ef við viljum að fólk lifi heilbrigðara lífi þá ættum við að beita hvatningu um að ganga, hjóla og hreyfa sig meira. Í staðinn fyrir að skattpína fólk ættum við að kanna hversu áhrifaríkir syndaskattar eru í raun og hvort þeir hafi einhver marktæk áhrif á hegðun. Þegar við yfirgefum Evrópusambandið 31. október, verður sögulegt tækifæri til að endurhugsa stjórnmál í landinu. Það væri ágætisbyrjun að endurhugsa skattastefnu út frá staðreyndum.“

Mömmuríkið á yfirsnúningi

„Mömmuríkið er á yfirsnúningi. Boris Johnson ætlar sér að standa vörð um frelsishugsjónina og ábyrgð einstaklinga á sjálfum sér“, er haft eftir Daniel Pryor hjá Adam Smith stofnuninni, sem styður Johnson. Þetta útspil Johnson kemur á meðan Landlæknisembættið í Bretlandi hefur lagt til skatta á alla óhollustu í þeim tilgangi að sporna við offitu barna.

Ýmsum embættismönnum og sérfræðingum líst illa á fyrirætlanir Johnsson, sem telja að skattar hafi mikil áhrif á að draga úr reykingum og offitu. En Íslandsvinurinn Christopher Snowdon, sem heimsótti Frjálsa sumarskólann í vor, hjá Hagfræðistofnuninni IEA sagði m.a.:

„Það ætti að vera forgangsverkefni að draga úr skattlagningu sem kemur verst við þá tekjulægstu og refsar fólki fyrir val á lífsstíl. Það er hvatning að sjá hann mótmæla mjólkurhristingsskattinum og að hann vilji taka sykurskattinn til endurskoðunar. Hann ætti jafnframt að endurskoða skatta á áfengi og tóbak. Það er kominn tími til að stjórnmálamenn hætti að ofsækja nautnir.“

En Johnson stendur fast við að hann ætli sér að reyna að draga úr reykingum og neyslu á óhollum mat, en hann segir að til þess verði að notast við aðferðir sem sannanlega dugi til þess.