Breski forsætisráðherrann Boris Johnson virðist hafa unnið gríðarlega stóran og öruggan sigur í bresku þingkosningunum. BBC birti útgönguspár við lokun kjörstaða kl. 22 í kvöld og hún bendir til stórsigurs Íhaldsmanna, þess stærsta frá árinu 1987 þegar Margret Thatcher bjó í Downingsstræti 10. Að sama skapi virðist Verkamannaflokkur Jeremy Corbyn hafa beðið sinn versta ósigur frá því fyrir seinna stríð.
Nokkuð ljóst er að vinstri menn eru í sárum eftir þessi úrslit og þegar er kallað eftir afsögnum helstu forystumanna Verkamannaflokksins.
Viljinn bendir á frábært kosningasjónvarp BBC sem stendur nú yfir og hvetur lesendur sína til að kíkja á fésbókarsíðu Viljans fram eftir kvöldi, þar sem skemmtilegar myndir og ummæli verða birt.