Braggamálið kann að fara til sveitarstjórnarráðuneytisins og til Umboðsmanns

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.

„Samkvæmt því sem fram hefur komið í fréttum er skýrsla Innri endurskoðunar til meðferðar hjá Reykjavíkurborg. Í samræmi við starfsvenjur umboðsmanns hefur efni hennar því ekki komið til sérstakrar athugunar á sama tíma,“ segir í svari Umboðsmanns Alþingis við fyrirspurn Viljans um hvort svonefnt braggamál sé til skoðunar að hálfu Umboðsmanns.

Fyrir jól var kynnt skýrsla Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um braggamálið og leiddi hún í ljós mikla framúrkeyrslu og töluverðar brotalamir varðandi stjórnsýslu og eftirfylgni. Jafnframt kom þar fram að lög hefðu ítrekað verið brotin sem og reglur borgarinnar um framkvæmdir af þessu tagi. Borgarráð hefur samþykkt að vinna frekar úr skýrslunni og gera tillögur um úrbætur, svo slík mál geti ekki endurtekið sig.

„Að því er varðar efni skýrslunnar þá er þar fjallað um atriði sem kunna að hafa almenna þýðingu um starfshætti sveitarfélaga. Áður en kemur að hugsanlegu eftirliti umboðsmanns Alþingis kann því að reyna á eftirlit samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins,“ segir Umboðsmaður Alþingis ennfremur í svari sínu við fyrirspurn Viljans.