Bresk stjórnmál í djúpri krísu: Boris hótar kosningum eftir ósigur í þinginu

Boris Johnson, forsætisráðherra.

Brexit-krísan náði nýjum hæðum (eða lægðum) í kvöld með því að ríkisstjórn Boris Johnson varð undir í atkvæðagreiðslu í breska þinginu í tengslum við tillögu um lagafrumvarp sem er ætlað að koma í veg fyrir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu án samnings.

Boris Johnson hefur hingað til sagt afdráttarlaust að Bretar muni yfirgefa ESB í lok október, annað hvort með samningi eða án hans. Margir þingmenn vilja ekki heyra á slíkt minnst og það kom í ljós í atkvæðagreiðslunni í kvöld þar sem fjölmargir þingmenn Íhaldsflokksins sviku lit og greiddu atkvæði með þingmönnum stjórnarandstöðunnar.

Johnson forsætisráðherra flutti þinginu yfirlýsingu um leið og úrslitin lágu fyrir og tilkynnti að hafinn væri undirbúningur að þingsályktun um að boða til kosninga hinn 14. október nk. Hann væri ekki hrifinn af því að grípa til þess, en hendur hans væru bundnar ef þingið staðfesti þennan vilja sinn í atkvæðagreiðslu á morgun þegar lagafrumvarpið sjálft kemur til afgreiðslu.

Segir Johnson að forsætisráðherra hefði að slíku frumvarpi samþykktu, enga samningsstöðu gagnvart Evrópusambandinu, þar sem endalaust væri hægt að draga viðræður á langinn. Hann myndi ekki fara á hnjánum til Brussel, frekar yrðu þingmenn að endurheimta umboð sitt hjá kjósendum og almenningur að taka ákvörðun um hvort það yrðu hann eða Jeramy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, sem færu fyrir viðræðum við ESB seinni hlutann í október.

Gaf hann um leið í skyn að Corbyn og félagar hafi engan áhuga á að virða þjóðaratkvæðagreiðsluna um Brexit, þeir vilji einfaldlega ekki ganga úr Evrópusambandinu.

Atkvæðagreiðslan fór 301-328.