Breska ríkisútvarpinu gert að draga saman seglin og selja eignir

Boris Johnson, forsætisráðherra.

Breska ríkisútvarpinu (BBC) hefur verið gert að draga umtalsvert saman í starfsemi sinni og selja útvarpsstöðvar, samkvæmt tillögum sem ættaðar eru úr forsætisráðuneytinu þar í landi.

Ætlunin er að taka útvarpsgjald, sem Bretar greiða, til endurskoðunar og taka upp áskriftarfyrirkomulag þess í stað. Ljóst er að stofnunin verður þar með af umtalsverðum tekjum og mun þurfa að draga verulega úr starfsemi sinni.

Helstu atriði í tillögum breska forsætisráðherrans eru þessi:

● Afnema útvarpsgjaldið og taka upp áskriftarfyrirkomulag

● BBC selji stærstan hluta úrvarpsstöðva sinna (sem eru 61 talsins)

● Fækka sjónvarpsstöðvum, en þær eru tíu talsins

● Draga úr umsvifum BBC á Netinu

● Banna starfsfólki BBC að hafa hliðartekjur af öðrum störfum

Tillögurnar koma að sögn Lundúnablaðsins Times í kjölfarið á harðri gagnrýni Boris Johnson forsætisráðherra á breska ríkisútvarpið undanfarin misseri, ekki síst í nýliðinni kosningabaráttu.

Útvarpsstjóri BBC hefur sagt að áskriftarfyrirkomulagið fæli í sér umtalsvert tekjutap fyrir stofnunina og gæti þýtt að vinsælir dagskrárliðir verði lagðir niður. Áskrift á borð við það sem Netflix innheimtir mánaðarlega myndi bitna mjög á almannaþjónustuhlutverkinu.

Breska ríkisstjórnin hefur látið uppi að til skoðunar sé að fella niður refsiheimildir gegn þeim sem neita að borga nefskattinn til stofnunarinnar frá árinu 2022 og gefið í skyn að hann verði alveg lagður niður frá árinu 2027, þegar núverandi þjónustusamningur rennur út.

Haft er eftir háttsettum aðila í forsætisráðuneytinu að ekki sé um innantómar hótanir að ræða, BBC verði að draga saman seglin. Stofnunin starfræki fjölda útvarpsstöðva og hafi sótt mjög fram á Netinu og margt í starfseminni sé utan lögbundinnar skyldu og þar hljóti að mega hagræða eins og annars staðar.