Brestir í samstöðu verkalýðshreyfingarinnar

Þriðjudaginn 19. febrúar sl. undirrituðu formenn VS og VR, þeir Guðbrandur Einarsson og Ragnar Þór Ingólfsson, samning um samruna félaganna. Samningurinn gerir ráð fyrir að félögin starfi undir nafni og kennitölu VR.

Svo virðist sem brestir séu komnir í samstöðu verkalýðshreyfingarinnar í aðdraganda mestu verkfallsátaka sem boðuð hafa verið á vinnumarkaði hér á landi um árabil. Formaður Landssambands verslunarmanna sagði af sér í dag og segir verulegan meiningarmun milli sín og forystu VR um hvernig nálgast skuli kjarasamningsgerð. Þá hefur verkalýðsfélagið Framsýn á Húsavík slitið sig frá samfloti með Starfsgreinasambandinu, sem segir miður að félagar í hreyfingunni beri hvern annan þungum sökum.

„Ég undirritaður Guðbrandur Einarsson, formaður LÍV, segi hér með af mér sem formaður sambandsins. Þeirri stöðu hef ég gengt í hartnær 6 ár af auðmýkt og þakklæti fyrir að hafa verið trúað fyrir þessu mikilvæga verkefni. Þessi staða hefur gefið mér margt og veitt mér tækifæri til að takast á við ný verkefni s.s. að eiga mikil og náin samskipti við systursamtök á Norðurlöndum og kynnast fólki sem þar er í forsvari. Sú reynsla hefur kennt mér margt sem ég mun búa að,“ sagði í tilkynningu sem send var fjölmiðlum í dag.

„Þær breytingar hafa hins vegar orðið að það stéttarfélag sem ég hef verið í forsvari fyrir undanfarin 21 ár, sameinast VR þann 1. apríl og við það færist samningsumboð þess félags yfir til VR í kjölfarið. Þá er sú staða uppi að LÍV og VR hafa ekki átt samleið við gerð kjarasamnings, þrátt fyrir að hafa lagt fram sameiginlega kröfugerð. Verulegur meiningarmunur er á milli mín og forsvarsmanna VR með hvaða hætti skuli nálgast kjarasamningsgerð og þar sem ég hef ákveðið að þiggja ekki starf hjá VR, þrátt fyrir boð þar um, tel ég eðlilegt að ég stigi úr stóli formanns Landssambands íslenskra verslunarmanna á þessum tímapunkti,“ sagði ennfremur í yfirlýsingu Guðbrandar.

Ragnar Þór nýr formaður

Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son formaður VR var kjör­inn formaður Lands­sam­bands ís­lenskra versl­un­ar­manna (LÍV) á fundi sam­bands­ins sem fram fór í há­deg­inu í dag, að því er frá greinir í fréttum Ríkisútvarpsins.

Í sam­tali við mbl.is eft­ir að hafa hætt sem formaður sagði Guðbrand­ur að hann hefði talið sig vera „kom­inn með góðan grunn“ til þess að klára kjara­samn­ing fyr­ir versl­un­ar­menn, aðra en þá sem væru í VR.

Á sama vettvangi staðfesti Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, að ekki hefði verið langt á milli samningsaðila:

„Viðræður hafa gengið vel að und­an­förnu og ég held að það hafi verið mat beggja aðila að það hafi verið grund­völl­ur fyr­ir kjara­samn­ingi. Hins veg­ar eiga sér stað vend­ing­ar á vett­vangi LÍV sem SA ræður illa við sem varð þess vald­andi að fund­ur­inn í dag var bókaður sem ár­ang­urs­laus á vett­vangi rík­is­sátta­semj­ara,“ sagði hann.

Skoðanir aðildarfélaga fara ekki saman

Samninganefnd Framsýnar á Húsavík, sem skipuð er stjórn og trúnaðarráði félagsins, kom saman til fundar í gærkvöldi. „Eins og við mátti búast, var fundurinn fjörugur og reiði fundarmanna endurspeglaðist út í Samtök atvinnulífsins að virða ekki kröfur verkafólks um mannsæmandi laun og þá vöktu tillögur stjórnvalda til lausnar kjaradeilunni ekki mikla gleði. Fundurinn hafnar öllum hugmyndum um að gefa eftir réttindi verkafólks varðandi lengingu á dagvinnutímabili, fleytingu á dagvinnu milli vikna/mánaða, breytingum á neysluhléum og yfirvinnuálagi til lækkunnar,“ segir á vefsíðu félagsins.

Í lok fundar var eftirfarandi samþykkt gerð samhliða greinagerð um stöðu mála og ástæður þess að Framsýn telur sig ekki eiga lengur samleið með Starfsgreinasambandi Íslands hvað kjarasamningsgerðina varðar við Samtök atvinnulífsins. 

Þar segir meðal annars:

„Krafa Samtaka atvinnulífsins hefur verið að fara með yfirvinnuálagið í 40% sem er í dag 80% af dagvinnugrunni. Framsýn hefur ítrekað látið bóka andstöðu sína í samninganefnd SGS og krafist þess að hugmyndum SA um vinnutímabreytingar væri vísað út af borðinu, en án árangurs. Önnur félög innan Starfsgreinasambandsins hafa verið tilbúin að skoða frekari útfærslur á þessum breytingum með ákveðnum fyrirvörum.

Þrátt fyrir að Framsýn virði skoðanir annarra stéttarfélaga innan Starfsgreinasambandsins sér félagið sér ekki annað fært en að afturkalla samningsumboðið frá sambandinu þar sem skoðanir aðildarfélaganna fara ekki saman hvað þetta varðar. Framsýn getur ekki lagt nafn sitt við það að skerða réttindi sem verkalýðshreyfingin hefur barist fyrir af miklum eldmóði í gegnum tíðina til hagsældar fyrir verkafólk.“

Flosi Eiríksson framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins.

Miður að félagar séu bornir þungum sökum

Í tilefni af ákvörðun Framsýnar, sendi samninganefnd Starfsgreinasambandsins frá sér yfirlýsingu:

„Framsýn stéttarfélag hefur ákveðið að afturkalla samningsumboð sitt frá Starfsgreinasambandinu og er það í samræmi við forræði einstakra félaga á sínum málum.

Það er miður að í tengslum við þessa samþykkt þurfi að bera félaga sína þungum sökum. Samninganefnd Starfgreinasambandsins mun aldrei taka þátt í því að semja um að rýra kjör okkar fólks, hvort sem það lítur að vinnutíma, álagsgreiðslna eða annara þátta.

Í viðræðum við Samtök atvinnulífsins hefur þessi afstaða komið fram með mjög sterkum og afdráttarlausum hætti og samninganefndarmönnum á að vera það algerlega ljóst. Það má minna á að Starfsgreinasambandið sleit viðræðum við SA vegna þessara þátta.

Samninganefnd Starfsgreinasambandsins mun ekki standa í skeytasendingum við félaga sína í fjölmiðlum. Verkefni okkar er að ná samningum um bætt kjör okkar fólks, við einbeittum okkur að því í samhljómi við félaga okkar í Eflingu, Verkalýðsfélagi Akraness og Grindavíkur.“