Breskir flugmenn og flugvirkjar eru teknir til við æfingar í Jacksonville í Flórída í Bandaríkjunum til að búa sig undir að hefja gæslu með P-8A Poseidon kafbátaleitarvélum á árinu 2020.
Breska varnarmálaráðuneytið segir að flugáhafnir verði á næstu þremur árum þjálfaðar á þessum vélum. Heimavöllur þeirra er í Lossiemouth á Skotlandi.
Hvert þjálfunarnámskeið tekur um sex mánuði.
Bandaríska þjálfunarsveitin, VP-30, þjálfar um 600 manns á ári. Bandaríkjamenn leggja nú P-3 Orion kafbátaleitarvélunum sem voru meðal annars á Keflavíkurflugvelli og koma P-8A Poseidon vélar í þeirra stað. Til að aðstaðan á Keflavíkurflugvelli nýtist fyrir þær hefur Bandaríkjaþing veitt fjárheimild til endurnýjunar og breytinga á flugskýli og flughlöðum í Keflavík.
Bretar taka við fyrstu P8-vél sinni í október 2019, hún kemur síðan til Skotlands vorið 2020. Mælt er með að Bretar eignist 16 slíkar vélar en alls hafa verið fest kaup á níu. Þeir hafa verið án kafbátaleitarvéla í nokkur ár eða síðan þeir lögðu Nimrod-þotum sínum.
Af vardberg.is, birt með leyfi.