Bretar loka skólum að ráði vísindamanna og aflýsa vorprófum

Bresk stjórnvöld hafa ákveðið að loka öllum skólum í landinu frá og með föstudeginum. Vorprófum, sem fara áttu fram í maí og júní, hefur verið aflýst.

Patrick Vallance, prófessor og vísindaráðgjafi bresku ríkisstjórnarinnar, segir að þetta sé ákveðið að ráði vísindamanna, þar sem meginmarkmiðið sé að bjarga mannslífum og vernda þá sem viðkvæmdastir eru fyrir.

Kennslu verður haldið áfram fyrir börn foreldra sem starfa í heilbrigðisþjónustunni eða í störfum sem skilgreind eru nauðsynleg í baráttunni við Kórónaveiruna.

Boris Johnson forsætisráðherra biður almenning í landinu um að fela umsjá barna sinna ekki í hendur ömmu og afa eða eldra fólks, sem er viðkvæmara fyrir veirunni.

Bretar höfðu eins og Íslendingar ákveðið að halda skólakerfinu að mestu opnu, en það gekk erfiðlega þar sem kennarar hafa veikst og orðið að aflýsa kennslu víða af þeim sökum.

Engin tímamörk eru á þessari ákvörðun og allt eins er búist við að skólahald leggist alveg af þangað til næsta vetur.