„Enginn forsætisráðherra vill flytja boðskap af þessu tagi,“ sagði Boris Johnson, forsætisráðherra Breta í ávarpi til þjóðar sinnar í kvöld er hann tilkynnti um útgöngubann í landinu næstu þrjár vikur í því skyni að bjarga heilbrigðiskerfinu frá því að brotna undan álagi af völdum Kórónaveirunnar.
„Verið heima, eða sætið sektum ella,“ sagði forsætisráðherrann ennfremur og tiltók fáar undantekningar frá útgöngubanninu, sem eru t.d. að geta verslað nauðsynlegar matvörur og lyf, hreyfa sig stuttlega einu sinni á dag eða fara til og frá vinnu þegar ekki er hægt að stunda hana heiman frá.
Boris bað þjóð sína að sleppa vinafundum eða samkomum í fjölskyldunni utan heimilisins og sagði að lögreglan hefði fengið fyrirmæli um að leysa upp samkomur fleiri en tveggja þurfi þess með.
Hann bætti við að allar verslanir myndu loka frá og með morgundeginum sem ekki selja nauðsynjavörur og þetta sé nauðsynlegt til þess að útbreiðsla veirunnar verði ekki til þess að of margir veikist illa á sama tíma og beri þannig heilbrigðiskerfið ofurliði.