Bretar slegnir óhug: Vonast til að Boris þurfi ekki á öndunarvél að halda

Boris Johnson, breski forsætisráðherrann sem greindist með Kórónuveiruna Cpvid-19 fyrir tæplega hálfum mánuði, var fluttur í skyndingu á gjörgæsludeild St. Thomas-sjúkrahússins í nágrenni Downing-strætis í Lundúnum í gærkvöldi.

Líðan hans versnaði hratt í gær og var honum gefið súrefni. Vonast er til að hann þurfi ekki á öndunarvél að halda, en það mun koma í ljós í dag eða á allra næstu dögum. Added:

Boris hafði verið fluttur á sjúkrahús í fyrradag í öryggisskyni, en vaxandi öndunarerfiðleikar hans í gær urðu læknum áhyggjuefni. Hann hefur ekki greinst með lungnabólgu, að minnsta kosti ekki enn sem komið er, að sögn talsmanns breska forsætisráðuneytisins.

Heimildamenn Lundúnablaðsins The Times, segja að stemningin hafi verið mjög spennuþrungin og öllum sé mjög brugðið.

Dominic Raab utanríkisráðherra hefur verið falið að gegna embættisskyldum forsætisráðherra meðan á veikindunum varir.

Aðdáendur jafnt sem pólitískir andstæðingar hafa keppst við að senda forsætisráðherranum hlýjar batakveðjur og þjóðarleiðtogar um allan heim hafa sent honum og bresku þjóðinni baráttukveðjur.