Brexit-samkomulagið staðfest af öllum 27 leiðtogum ESB ríkjanna

Breski forsætisráðherrann, Theresa May.

Samningur um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu (Brexit) hefur verið samþykktur samhljóða af öllum 27 leiðtogum ríkja Evrópusambandsins á sérstökum leiðtogafundi í Brussel í morgun.

Samningurinn var samþykktur eftir aðeins um klukkustundar umræðu á fundinum í morgun. Síðustu hindruninni var ýtt úr vegi í gærkvöldi með því að Spánverjar féllust á að setja ekki málefni Gíbraltar fyrir sig á þessu stigi málsins.

Samningurinn þarf nú að fara til afgreiðslu á Evrópuþinginu og því breska. Mesta athyglin beinist að breska þinginu þar sem mikil andstaða er við efni hans og raunveruleg hætta á að hann verði felldur í atkvæðagreiðslu.

Að baki eru tæp tvö ár af samningaviðræðum sem hófust formlega þegar Bretar lýstu því yfir að grein 50 hefði verið virkjuð í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar um útgönguna árið 2016.

Gert er ráð fyrir atkvæðagreiðslu um samninginn í breska þinginu í byrjun desember, en óvíst er hvort Theresa May verður þá enn forsætisráðherra, því óánægðir samflokksmenn hennar eru að safna liði til að geta lagt fram vantraust á hana.

Hér má fylgjast með beinni textalýsingu frá Bretlandi vegna tíðindanna í morgun.