Brjóstmynd af Ólafi Ragnari afhjúpuð á Bessastöðum

Frá athöfninni að Bessastöðum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra afhjúpaði í dag brjóstmynd af Ólafi Ragnari Grímssyni, fv. forseta Íslands, við hátíðlega athöfn að Bessastöðum. Brjóstmyndin er eftir Helga Gíslason myndhöggvara, sem Ólafur Ragnar kveðst hafa dáðst að um áratugaskeið.

Ólafur Ragnar skýrir frá þessu á Twitter-síðu sinni og birtir mynd af brjóstmyndinni og þeim Katrínu Jakobsdóttur er myndin var afhjúpuð. Segir hann að fjölskylda hans og vinir hafi verið viðstödd athöfnina, en Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hafi sett hana með nokkrum orðum.