Viðmælendur Viljans segja að þrír sjálfstæðismenn komi helst til greina sem næsti dómsmálaráðherra eftir afsögn Sigríðar Á. Andersen, þótt nú hafi verið ákveðið að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir bæti ráðuneytinu tímabundið við sig.
Þetta eru þau Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðarráðherra (sem færir sig þá um set úr iðnaðarráðuneytinu, ef hún verður dómsmálaráðherra til frambúðar), Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari flokksins og Brynjar Níelsson þingmaður flokkisns og fv. formaður Lögmannafélagsins.
Af þessum þremur hefur Brynjar ótvírætt mestu reynsluna sem lögmaður. Hann var hæstaréttarlögmaður um árabil áður en hann sneri sér að stjórnmálum.
Eiginkona hans er Arnfríður Einarsdóttir, dómari við Landsrétt, og ein þeirra fjögurra dómara sem styrr stendur um eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu.
Stefán BJ Gunnlaugsson hrl. segir í samtali við Viljann, að slíkt eigi ekki að hafa nein áhrif í málinu. Arnfríður hafi ekki verið neinn gerandi í ferlinu við skipan dómara, hún hafi aðeins sótt um og sé óumdeilanlega hæf, enda verið héraðsdómari um árabil, forseti Félagsdóms og hafi margoft dæmt í Hæstarétti.
„Ég tel að Brynjar sé mjög hæfur til að gegna starfi dómsmálaráðherra. Hann hefur yfirgripsmikla þekkingu á dómskerfinu eftir störf sín í lögmennsku og sem formaður lögmannafélagsins,“ segir hann.
Þær Þórdís Kolbrún og Áslaug Arna eru báðar lögfræðingar, Þórdís Kolbrún er varaformaður flokksins og Áslaug Arna ritari og báðar eru því vel hæfar til starfans.
Þórdís Kolbrún var aðstoðarmaður Ólafar Nordal heitinnar þegar hún var innanríkisráðherra og þekkir því vel til í málaflokknum.
Þær þykja báðar koma vel til greina í embættið, eins og Brynjar og ef til vill mun Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, horfa til kynjasjónarmiða við brotthvarf Sigríðar úr ríkisstjórn.
Fari svo að Bjarni horfi út fyrir þingflokkinn í vali sínu, hefur nafn Unnar Brár Konráðsdóttur, fv. forseta þingsins, verið nefnt, en hún féll af þingi í síðustu kosningum og starfar nú sem sérfræðingur forsætisráðherra.
Samkvæmt heimildum Viljans taldi Bjarni Benediktsson ekki hægt að taka ákvörðun um dómsmálaráðherra til frambúðar á jafn skömmum tíma og gafst eftir ákvörðun Sigríðar Á. Andersen í gær.
Hann hafði ekki náð að ræða einslega við hvern og einn þingmann flokksins og þess vegna lagði hann þessa tillögu fram til þess að tími vinnist til að finna framtíðarlausn sem flokksmenn sætta sig við.