Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands mun koma saman í byrjun næstu viku og ákveða meginvexti bankans. Þetta er fyrsti fundur nefndarinnar eftir sumarfrí, og það sem meira er, fyrsti fundur með nýjan skipstjóra í brúnni þar sem Ásgeir Jónsson tók við embætti Seðlabankastjóra sl. þriðjudag.
Þetta benda greinendur Arionbanka á í tölvupósti til viðskiptavina sinna. Nýr seðlabankastjóri er einmitt fyrrverandi forstöðumaður greiningardeildar bankans. Þeir segja að þótt yfirbragð nefndarinnar hafi tekið breytingum frá síðasta fundi, sem var í lok júní, hafi stóra myndin í efnahagsmálum lítið breyst.
„Nýjustu tölur úr ferðaþjónustunni benda enn þá til þess að samdráttur í greininni verði meiri en Seðlabankinn spáði í maí, verðbólga og verðbólguvæntingar eru enn þá yfir verðbólgumarkmiði og kjarasamningum við opinbera starfsmenn er ólokið.
Sökum þessa teljum við að sömu valkostir standa nefndinni til boða og í júní, að lækka vexti um 25 punkta eða að staldra frekar við og halda vöxtum óbreyttum. Miðað við innkomu nýs seðlabankastjóra og ummæla hans í fjölmiðlum síðastliðna daga teljum við að hann muni leggja til 25 punkta vaxtalækkun, sem nefndin muni samþykkja, þó ekki einróma frekar en raunin varð í júní.“