Dagbók með textum kunnra kvenheimspekinga

Bókarkápan við hlið Sigríðar Þorgeirsdóttur prófessors. / Ljósmynd: Háskóli Íslands.

Út er komin dagbókin Calendar of Women Philosophers 2019 með stuttum textum um kvenheimspekinga. Dagbókin er gefin út af kynjanefnd FISP, alþjóðlegra samtaka heimspekinga, í ritstjórn Sigríðar Þorgeirsdóttur, formanns nefndarinnar og prófessors í heimspeki við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands.

Í bókinni er fjallað um kvenheimspekinga sögunnar, frá öllum tímabilum og heimshornum. Tilgangur útgáfunnar er að vekja athygli á konum í sögu heimspekinnar en enn skortir mikið á að þeirra sé getið í heimspekisöguritum og námsefni heimspekinnar.

Rannsóknir síðustu áratuga hafa sýnt að konur hafa ævinlega stundað heimspeki og hafa margar haft áhrif á heimspeki síns tíma þótt verk þeirra hafi ekki verið varðveitt né framlags þeirra getið í sama mæli og verk karla.

Meðal höfunda textanna eru margir kunnir heimspekingar eins og Luce Irigaray, Julia Kristeva og Seyla Benhabib.