„Stóra myndin er sú að ef það tekst að gera góða kjarasamninga þá fær borgin ávinning, en hún mun líka fá skellinn ef kjaraviðræður enda illa með fjöldagjaldþrotum fyrirtækja. Það er því gríðarmikilvægt fyrir Reykjavíkurborg að kjaradeilurnar leysist farsællega,“ sagði Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, en hann kynnti Kjarapakka borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins á fundi borgarstjórnar sem nú stendur yfir í Ráðhúsinu.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, kallaði tillöguna, sem Eyþór hafði þó ekki lokið við að ræða, „merkingarlaust og innihaldslaust bull“. Hann spyr hvar eigi að skera niður þjónustuna í borginni. Að slá tillögunni fram sé „óábyrgt og leti““, Dagur segir að ekki sé hægt að taka tillöguna alvarlega nema sem einhverskonar „pólitískt útspil.“
Hann talar um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið á móti lækkun leikskólagjalda en séu með skattalækkunum sem nýtist hinum efnameiri best. Honum finnst það „ótrúlegt óraunsæi“ að vilja lækka tekjustofna Reykjavíkurborgar áður en fyrir liggi hver niðurstaða kjarasamninganna verður t.d. fyrir starfsmenn borgarinnar.
Dagur talaði um hrun Orkuveitunnar fyrir 10 árum og kallar tillöguna „lýðskrumstillögu“, vegna hugmyndanna um að nota arðgreiðslur Orkuveitunnar til fjármögnunar tillögunni um Kjarapakkann. Hann segir tillöguna „innilega ótrúverðuga“ og lagði til að hún yrði felld.
Eyþór vildi að sögn ekki eiga orðastað með þeim „fúkyrðum“ sem borgarstjóri lét falla um tillöguna á fundinum, en hélt áfram að ræða hana.
Hann benti á að stærsta sveitarfélag landsins, Reykjavíkurborg, ætti sökum stærðarhagkvæmni að vera ódýrari í rekstri en minni sveitarfélög, en sé það alls ekki. „Það er krafa borgarbúa að farið sé vel með fé. Vandamálið er ekki tekjuvandi, heldur sóunin. Förum betur með fé og verum með svipuð gjöld og nágrannasveitarfélögin.“
Dagur benti á að önnur sveitarfélög hefðu talað um lítið svigrúm til lækkunar á gjöldum.