Dalai Lama vill að flóttamenn snúi aftur heim

„Takmarkaður fjöldi er í lagi, en að Evrópa [verði] að lokum að múslimalandi, Afríkulandi — útilokað,“ sagði Dalai Lama í viðtali við Breska ríkisútvarpið, er hann var inntur eftir ræðu sem hann hélt í fyrra. 

Í þeirri ræðu viðraði hann umdeilt sjónarmið, um að flóttamenn í Evrópu ættu á endanum að snúa aftur til síns heima og sagði m.a.: „Evrópa er fyrir Evrópumenn“. 

Þessi ummæli komu á óvart, frá þessum frægasta flóttamanni heims, sem flýði Tíbet árið 1959, og hefur búið í Indlandi, sem hann hrósar fyrir frelsi og víðsýni. Hann fór fyrir útlagastjórn Tíbet, en steig til hliðar árið 2011 og hefur verið andlegur leiðtogi Tíbeta síðan þá. Hann er nú að verða 84 ára gamall.

Dalai Lama er víðsýnn alþjóðasinni, og þegar talið barst að BREXIT sagðist hann vera „aðdáandi Evrópusambandsins“, og benti á að alþjóðasamvinna sé lykilatriði við að varðveita frið.

„Evrópulönd ættu að mennta og þjálfa flóttamenn, en stefna á að þau snúi aftur til síns heima með þá hæfni og menntun“, sagði Dalai Lama og trúir því að takmarkið ætti að vera að flóttamenn endurreisi heimalöndin sem þeir flýðu. Hann gagnrýndi Bandaríkjaforseta fyrir „skort á grundvallarsiðferðisgildum“. „Þegar hann varð forseti þá gaf hann út „Ameríka fyrst“. Það er rangt,“ sagði Dalai Lama.

Trúarleiðtoginn sagði einnig að ef sporgöngumaður hans yrði kona, vonaðist hann eftir að hún yrði falleg. Fegurð sé ekki síður mikilvæg en gáfur. „Ef kvenkyns Dalai Lama kemur fram á sjónarsviðið, verður hún að vera fallegri“, sagði hann í viðtalinu og hló, en kvaðst þó vera stuðningsmaður jafnréttis kynjanna og jafnra launa. Í Búddisma skipti bæði innri og ytri fegurð máli.

Dalai Lama er, þrátt fyrir að leiðtogar hins frjálsa heims nema Donald Trump, hafi keppst við að fá að hitta hann, óhræddur við að hafa og viðra skoðanir sem ekki falla endilega í kramið. Skilaboð hans um samstöðu og kærleika eru þó enn í fullu gildi.