Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, tilkynnti í kvöld um víðtækar lokanir í því skyni að hamla útbreiðslu Kórónaveirunnar þar í landi. Öllum skólum hefur verið lokað í hálfan mánuð, mörgum opinberum stofnunum sömuleiðis og einkafyrirtæki eru beðin um að freista þess að láta starfsmenn vinna heima, verði því við komið. Bann við fjöldasamkomum hefur aukinheldur tekið gildi.
Lokanir skóla taka gildi á föstudag. Þá verður öllum söfnum og opinberum menningastofnunum lokað nú þegar.
Forsætisráðherrann sagði mikilvægt að þjóðin standi nú saman. Ástandið sé alvarlegt, en ekki megi skella Danmörku í lás og stöðva efnahagslífið með víðtækum afleiðingum. Það sé ekki matvælaskortur og því engin ástæða til að hamstra vörur í matvöruverslunum.