Danir viðurkenni full yfirráð Íslendinga yfir Grænlandi

Það er gömul saga og ný að deilt sé um yfirráð á Grænlandi, eyjunni stóru vestan við landið okkar. Ekki aðeins Donald Trump eða Kínverjar hafa ásælst Grænland, það gerðu líka íslenskir stjórnmálamenn um miðja síðustu öld.

Pétur Ottesen, sá þingmaður sem lengst hefur setið á Alþingi við Austurvöll, eða í tæp 43 ár, var frá Ytra-Hólmi í Innri-Akraneshreppi og bóndi þar til æviloka. Hann var alþingismaður Borgfirðinga 1916–1959 en ekki alltaf fyrir sama flokk eða framboð. Þannig sat hann á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn þversum sem kallaður var, utan flokka (Sjálfstæðisflokkurinn eldri), Sparnaðarbandalagið, Borgaraflokkinn eldri, Íhaldsflokkinn og loks Sjálfstæðisflokkinn eins og við þekkjum hann í dag.

Pétur Ottesen alþingismaður.

Pétur hafði mikinn áhuga á landhelgismálum Íslendinga og landgrunnsrétti og taldi Íslendinga eiga ríkra hagsmuna að gæta þegar kom að Grænlandi.

Árið 1953 lagði hann fram þingsályktunartillögu þar sem sagði:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að bera nú þegar fram við ríkisstjórn Danmerkur kröfu um, að hún viðurkenni full yfirráð Íslendinga yfir Grænlandi.

Ef danska stjórnin fellst ekki á þá kröfu, lýsir Alþingi yfir þeim vilja sínum, að leitað verði um málið úrskurðar alþjóðadómstólsins í Haag.“