„Ríkisútvarpið dregur á hverjum degi taum vinstri flokkanna, Samfylkingar og VG, og tekur aðra smáflokka á vinstri kantinum með þegar það hentar þessum tveimur. RÚV er með frátekin sæti í aðdáendaklúbbi Vinstrimeirihlutans í Reykjavík og nálgast hann aldrei með gagnrýnum hætti. Og svo á stofnunin sína óvini. Bréfritari er stoltur af því að teljast til þeirra, þótt stofnunin hafi engar lagaheimildir til að leggja stjórnmálalega andstæðinga sína í einelti. Þegar bréfritari hélt á sínum tíma ræðu á landsfundi, frjáls úr hlutleysiskröfu bankastjóra, þar sem margt fréttnæmt var sagt, hljóp fréttamaður RÚV á það að bréfritari hefði líkt sjálfum sér við Jesú Krist. Að svo miklu leyti sem bréfritari líkti sér við einhvern eða einhverja í þeirri ræðu þá hefðu menn í erindagjörðum, eins og RÚV gjarnan er, getað sloppið með að segja að Davíð Oddsson hefði líkt sjálfum sér við ræningjana sem hengdir voru Kristi til samlætis. En sú frétt hefði ekki bent til að maðurinn væri orðinn galinn. Sjálfsagt gat þessi undarlega „frétt“ skrifast á heimsku þess tiltekna fréttamanns sem í hlut átti. En þegar ekkert var leiðrétt né sjálfsögð afsökun send sást hvað hékk á spýtunni.“
Þetta skrifar Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, í Reykjavíkurbréfi helgarinnar, þar sem hann bregst við ummælum Ólafs Þ. Harðarsonar, prófessors í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, sem sagði í fréttum RÚV í vikunni að gagnrýni Davíðs sem fv. formanns Sjálfstæðisflokksins á núverandi forystu flokksins væri líklega einsdæmi í íslenskum stjórnmálum.
Frægt Samfylkingartröll úr Hafnarfirði
„Þegar tveir ritstjórar voru ráðnir að einkafyrirtækinu Morgunblaðinu fyrir tæpum 10 árum var RÚV með mikinn æsing í kvöldfréttatímum sínum um þetta einkafyrirtæki og samkeppnisaðila gegn 7 milljarða forskoti þess. Hringt var „live“ inn í fréttatímann og sá kynntur sem starfsmaður og sagði hann að „fólk gengi grátandi um ganga Morgunblaðsins.“ Á daginn kom að heimildin hafði ekki verið á staðnum vikum saman. Sagt var frá miklu uppsögnum á áskriftum og „RÚV“ gaf upp símanúmer sem áskrifendur gætu hringt í til að segja upp áskrift að blaðinu!!!
Næstu tvo daga birti textavarp Ríkisútvarpsins símanúmerið sem ætti að hringja í til að segja upp Morgunblaðinu!
Ríkisútvarpið (það er klíkan sem þykist eiga það og auglýsir þá eign), hefur aldrei beðið afsökunar á þessari einstöku framkomu. Á fimmtudagkvöld var fengið frægt samfylkingartröll úr Hafnarfirði og Háskólanum sem lengi hefur afflutt stöðu andstæðinga Samfylkingar á kosninganótt og fengið borgað fyrir. Nú var hann pantaður til að ráðast á bréfritara. Enda frægur orðinn fyrir ótrúlegt ofstæki í þeim efnum og þá persónulegu fæð sem hann leggur á þann mann. Verstu dæmin hefur hann afsakað með sömu rökum sem RÚV tekur ekki gild gagnvart þingmönnum sem það hefur á heilanum.“
Davíð bendir á að reyndar séu til margar fréttir um gagnrýni fyrrverandi forystumanna flokka á núverandi forystu og birtir, máli sinu til stuðnings, brot úr frétt Viljans frá í gær, um óánægju innan Framsóknarflokksins, þar sem sagði:
„Baklandið innan Framsóknarflokksins er óánægt með stöðu mála og kom það skýrt fram í máli margra fulltrúa á miðstjórnarfundi nýverið. Hélt þar Guðni Ágústsson, fv. formaður flokksins, mikla eldmessu og vandaði flokkssystkinum ekki kveðjurnar.“
Bendir hann og á að í valdatíð Sigmundar Davíð hafi Guðni krafist þess opinberlega að Sigmundur hætti sem formaður.
„Það er svo sem enginn ágreiningur um að Ólafur Harðarson sé ekki beisinn fræðimaður en varla svona yfirgengilega slappur að hann kannist ekki við dæmi og segir þau ekki til þótt horft sé áratugi aftur í tímann. Hvernig hafa formennirnir Jón Baldvin og Ingibjörg Sólrún talað við hvort annað? Hvernig hefur gamall formaður Alþýðflokksins talað um framgöngu sinna flokksystkina í orkupökkum.
Þótt Ólafur Harðarson sé með eindæmum slappur fræðimaður og það sé ágreiningslítið, þá hlýtur hann þó að frétta eitthvað að minnsta kosti um það sem gerist á hans eiginn bæjum,“ segir hann ennfremur