„Stundum gerast menn gamansamastir þegar alvaran er að hrjá þá. Það henti Þorgerði K. Gunnarsdóttur, formann Viðreisnar, flokksbrots úr Sjálfstæðisflokki á borð við Frjálslynda og Borgaraflokk sem hurfu svo án þess að marki fyrir í sögunni. Þorgerður skrifar í grein í málgagn Viðreisnar, Helgablaðið, sem kallað er, og minnir á að hún „hafi verið í hópi fólks sem stóð andspænis þeirri þungu ákvörðun að láta leiðir skilja með Sjálfstæðisflokknum. Ástæðan var fyrst og fremst sú að okkur fannst að flokkurinn væri fastur í ákveðinni rörsýn“. Þetta eru áhugaverðar skýringar en óvíst að þeir sem fóru hvurgi úr flokki nái því að ESB-brotið hafi hlaupist á brott út af „rörsýn“. Væri verið að lýsa sundurlyndi í félagi um pípulagnir gætu menn þar hugsanlega orðið einhverju nær.“
Þetta skrifar Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins í leiðara í dag, sem svar við grein Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, alþingismanns Viðreisnar, sem birtist í Fréttablaðinu í gær. Hún sakaði þar ritstjóra Morgunblaðsins, Davíð og Harald Johannessen, um að hafa formann Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktsson, að háði og spotti. Auk þess að sakaði hún flokkinn um að ráða ekki við EES umræðuna og kvað hún flokkinn þverklofinn.
Davíð heldur áfram:
„Gamanið óx eftir því sem lengra var lesið. Næst sneri Þorgerður að deilum í Sjálfstæðisflokki eftir uppnám er leynimakk ríkisstjórnar um orkupakka barst upp undir yfirborð svo braut á. Fyrstu tveimur pökkunum var lætt í gegn svo engan grunaði nokkuð ljótt. Þar var mjög nærri stjórnarskránni höggvið. Nú þegar pakkarnir þrír liggja saman fyrir þarf eindreginn brotavilja til að hafna ásökunum um stjórnarskrárbrot. En Þorgerður segir að nú „blasi við ein grimmustu innanflokksátök sem sögur fara af í áratugi“ og lætur eins og þá horfi hún til gjörvallrar sögu flokkakerfisins.
Þessi fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokks kynnti fyrirvaralaust brottför sína þaðan og jafnframt eins og í framhjáhlaupi að Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður, yrði samferða sér út. Kúnstug aðferð það.
Þorgerður heldur svo áfram og snýr sér næst að núverandi formanni Sjálfstæðisflokksins sem reyndi lengi að gera henni til hæfis áður en hún fauk í viðreisnargolunni. Nú segir Þorgerður að vondir menn hafi formanninn að háði og spotti „með því að benda í sífellu á að hann hafi verið á móti málinu í byrjun en sé því nú fylgjandi af óskiljanlegum ástæðum“. En segir svo, að „ástæðan fyrir skoðanaflökti formannsins sýnist mér leiða af stöðu hans í þverklofnum flokki. Í byrjun umræðunnar vissi hann að það var ekki stuðningur í baklandinu. Eftir framgöngu varaformanns, ritara og utanríkisráðherra hefur hann talið að nægjanlegur stuðningur væri kominn þannig að honum væri óhætt að tala eins og hjarta hans slær. Það virðist ekki hafa verið rétt stöðumat“.“
Sá sem á slíkan „vin“ þarf ekki fleiri
„Þetta er með ólíkindum og víst að sá sem á slíkan „vin“ þarf ekki fleiri, enda allt hér á haus. Andstaða við orkupakkann var lágvær í Sjálfstæðisflokknum, enda virtist allur ótti ástæðulaus. Landsfundur hafði tekið af skarið svo að ekkert vantaði upp á. Og formaðurinn sá til þess að flokksfólkið þurfti ekki að efast um heilindi hans. Úr ræðustól Alþingis gerði hann þeim og landsmönnum öllum algjörlega ljóst að honum mætti treysta. Engar fræðilegar útleggingar þurfti á orðum formannsins og ekkert svigrúm var til útúrsnúninga. Ættarvitar voru óbrúklegir. Yfirlýsingin var tæpitungulaus: „Hvað í ósköpunum liggur mönnum á að komast undir sameiginlega raforkustofnun Evrópu á okkar einangraða landi með okkar eigið raforkukerfi? Hvers vegna í ósköpunum hafa menn áhuga á því að komast undir boðvald þessara stofnana? Eru það rök að þar sem Evrópusambandinu hefur þegar tekist að koma Íslandi undir einhverja samevrópska stofnun sé ástæða til að ganga lengra? Hérna erum við með kristaltært dæmi um það, raforkumál Íslands eru ekki innri-markaðsmál.“
Þorgerður fullyrðir að þarna hafi Bjarni Benediktsson talað sér þvert um hug og ekki eins og „hjarta hans slær“. Þarna er mikið sagt.“
„Hún hleður hins vegar lofi á fjóra nafngreinda sjálfstæðismenn enda hafi málflutningur þeirra verið í fullu samræmi við röksemdir Viðeisnar. En hún bætir við að hinir lofsungnu hafi þó engu skilað: „En þessu málefnalega og þróttmikla fólki hefur á hinn bóginn ekki tekist að hrekja þær fullyrðingar ritstjóra Morgunblaðsins að þorri flokksmanna og forystumanna flokksfélaga standi eins og klettur gegn þingmönnunum. Að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi ekki baklandið með sér í orkupakkamálinu. En það er einmitt sá veruleiki sem veldur því að þessi átök marka þáttaskil í stjórnmálasögunni.“
Að lokum skrifar Davíð:
„Þorgerður kóngsdóttir í Klofningi á augljóslega erfitt með að kyngja þeirri staðreynd þótt hún viðurkenni hana, en bindur vonir sínar við að einhverjar skjátur kunni að rekast yfir ryðgaðan gaddavírinn til smáflokksins sem er á göngunni sem slíkra flokka bíður ætíð sé sæmilega tekið á móti.“