Davíð svarar „kóngsdótturinni í Klofningi“

Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins og fv. forsætisráðherra.

„Stund­um ger­ast menn gam­an­sam­ast­ir þegar al­var­an er að hrjá þá. Það henti Þor­gerði K. Gunn­ars­dótt­ur, formann Viðreisn­ar, flokks­brots úr Sjálf­stæðis­flokki á borð við Frjáls­lynda og Borg­ara­flokk sem hurfu svo án þess að marki fyr­ir í sög­unni. Þor­gerður skrif­ar í grein í mál­gagn Viðreisn­ar, Helga­blaðið, sem kallað er, og minn­ir á að hún „hafi verið í hópi fólks sem stóð and­spæn­is þeirri þungu ákvörðun að láta leiðir skilja með Sjálf­stæðis­flokkn­um. Ástæðan var fyrst og fremst sú að okk­ur fannst að flokk­ur­inn væri fast­ur í ákveðinni rör­sýn“. Þetta eru áhuga­verðar skýr­ing­ar en óvíst að þeir sem fóru hvurgi úr flokki nái því að ESB-brotið hafi hlaup­ist á brott út af „rör­sýn“. Væri verið að lýsa sund­ur­lyndi í fé­lagi um pípu­lagn­ir gætu menn þar hugs­an­lega orðið ein­hverju nær.“

Þetta skrifar Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins í leiðara í dag, sem svar við grein Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, alþingismanns Viðreisnar, sem birtist í Fréttablaðinu í gær. Hún sakaði þar ritstjóra Morgunblaðsins, Davíð og Harald Johannessen, um að hafa formann Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktsson, að háði og spotti. Auk þess að sakaði hún flokkinn um að ráða ekki við EES umræðuna og kvað hún flokkinn þverklofinn.

Davíð heldur áfram:

„Gamanið óx eft­ir því sem lengra var lesið. Næst sneri Þor­gerður að deil­um í Sjálf­stæðis­flokki eft­ir upp­nám er leyni­makk rík­is­stjórn­ar um orkupakka barst upp und­ir yf­ir­borð svo braut á. Fyrstu tveim­ur pökk­un­um var lætt í gegn svo eng­an grunaði nokkuð ljótt. Þar var mjög nærri stjórn­ar­skránni höggvið. Nú þegar pakk­arn­ir þrír liggja sam­an fyr­ir þarf ein­dreg­inn brota­vilja til að hafna ásök­un­um um stjórn­ar­skrár­brot. En Þor­gerður seg­ir að nú „blasi við ein grimm­ustu inn­an­flokksátök sem sög­ur fara af í ára­tugi“ og læt­ur eins og þá horfi hún til gjörv­allr­ar sögu flokka­kerf­is­ins.

Þessi fyrr­ver­andi vara­formaður Sjálf­stæðis­flokks kynnti fyr­ir­vara­laust brott­för sína þaðan og jafn­framt eins og í fram­hjá­hlaupi að Þor­steinn Páls­son, fyrr­ver­andi formaður, yrði sam­ferða sér út. Kúnstug aðferð það.

Þor­gerður held­ur svo áfram og snýr sér næst að nú­ver­andi for­manni Sjálf­stæðis­flokks­ins sem reyndi lengi að gera henni til hæf­is áður en hún fauk í viðreisn­ar­gol­unni. Nú seg­ir Þor­gerður að vond­ir menn hafi for­mann­inn að háði og spotti „með því að benda í sí­fellu á að hann hafi verið á móti mál­inu í byrj­un en sé því nú fylgj­andi af óskilj­an­leg­um ástæðum“. En seg­ir svo, að „ástæðan fyr­ir skoðana­flökti for­manns­ins sýn­ist mér leiða af stöðu hans í þverklofn­um flokki. Í byrj­un umræðunn­ar vissi hann að það var ekki stuðning­ur í bakland­inu. Eft­ir fram­göngu vara­for­manns, rit­ara og ut­an­rík­is­ráðherra hef­ur hann talið að nægj­an­leg­ur stuðning­ur væri kom­inn þannig að hon­um væri óhætt að tala eins og hjarta hans slær. Það virðist ekki hafa verið rétt stöðumat“.“

Sá sem á slíkan „vin“ þarf ekki fleiri

„Þetta er með ólík­ind­um og víst að sá sem á slík­an „vin“ þarf ekki fleiri, enda allt hér á haus. Andstaða við orkupakk­ann var lág­vær í Sjálf­stæðis­flokkn­um, enda virt­ist all­ur ótti ástæðulaus. Lands­fund­ur hafði tekið af skarið svo að ekk­ert vantaði upp á. Og formaður­inn sá til þess að flokks­fólkið þurfti ekki að ef­ast um heil­indi hans. Úr ræðustól Alþing­is gerði hann þeim og lands­mönn­um öll­um al­gjör­lega ljóst að hon­um mætti treysta. Eng­ar fræðileg­ar út­legg­ing­ar þurfti á orðum for­manns­ins og ekk­ert svig­rúm var til út­úr­snún­inga. Ætt­ar­vit­ar voru óbrúk­leg­ir. Yf­ir­lýs­ing­in var tæpitungu­laus: „Hvað í ósköp­un­um ligg­ur mönn­um á að kom­ast und­ir sam­eig­in­lega raf­orku­stofn­un Evr­ópu á okk­ar ein­angraða landi með okk­ar eigið raf­orku­kerfi? Hvers vegna í ósköp­un­um hafa menn áhuga á því að kom­ast und­ir boðvald þess­ara stofn­ana? Eru það rök að þar sem Evr­ópu­sam­band­inu hef­ur þegar tek­ist að koma Íslandi und­ir ein­hverja sam­evr­ópska stofn­un sé ástæða til að ganga lengra? Hérna erum við með krist­al­tært dæmi um það, raf­orku­mál Íslands eru ekki innri-markaðsmál.“

Þor­gerður full­yrðir að þarna hafi Bjarni Bene­dikts­son talað sér þvert um hug og ekki eins og „hjarta hans slær“. Þarna er mikið sagt.“

„Hún hleður hins veg­ar lofi á fjóra nafn­greinda sjálf­stæðis­menn enda hafi mál­flutn­ing­ur þeirra verið í fullu sam­ræmi við rök­semd­ir Viðeisn­ar. En hún bæt­ir við að hinir lof­sungnu hafi þó engu skilað: „En þessu mál­efna­lega og þrótt­mikla fólki hef­ur á hinn bóg­inn ekki tek­ist að hrekja þær full­yrðing­ar rit­stjóra Morg­un­blaðsins að þorri flokks­manna og for­ystu­manna flokks­fé­laga standi eins og klett­ur gegn þing­mönn­un­um. Að þing­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins hafi ekki baklandið með sér í orkupakka­mál­inu. En það er ein­mitt sá veru­leiki sem veld­ur því að þessi átök marka þátta­skil í stjórn­mála­sög­unni.“

Að lokum skrifar Davíð:

„Þor­gerður kóngs­dótt­ir í Klofn­ingi á aug­ljós­lega erfitt með að kyngja þeirri staðreynd þótt hún viður­kenni hana, en bind­ur von­ir sín­ar við að ein­hverj­ar skját­ur kunni að rek­ast yfir ryðgaðan gadda­vír­inn til smá­flokks­ins sem er á göng­unni sem slíkra flokka bíður ætíð sé sæmi­lega tekið á móti.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.