Deild V2 á Grund komin í sóttkví vegna gruns um smit hjá starfsmanni

Deild V2 á hjúkrunarheimilinu Grund  er komin í sóttkví. Enginn af íbúum deildarinnar er veikur, en starfsmaður sem var í vinnu fyrir nokkrum dögum er grunaður um að vera smitaður af COVID-19.

Í orðsendingu til aðstandenda vistmanna frá hjúkrunarforstjóra segir að unnið sé náið með smitrakningarteymi almannavarna og ekki liggi fyrir hversu lengi deildin þurfi að vera í sóttkví.

„Ef ástand breytist hjá ykkar nánasta munum við strax hafa samband og upplýsa ykkur. Við sendum ykkur jafnframt daglega upplýsingapóst og leyfum ykkur að fylgjast með stöðunni.

Við erum stöðugt að fylgjast með þróuninni og vonumst til að herða ekki frekar heimsóknarreglur, við viljum biðja ykkur að fara ekki með heimilisfólk út af heimilinu nema brýna nauðsyn beri til.  Allar rannsóknir og læknisheimsóknir sem mega bíða verða látnar bíða. 

Eins viljum við biðja ykkur að hafa með ykkur maska og setja hann á ykkur áður en þið komið inn á heimilið og þar til þið komið í herbergi ykkar ástvina og á leið aftur úr húsi.  Við minnum á sprittun og að halda alltaf 1 meters fjarlægð á meðan á heimsókn stendur,“ segir jafnframt í orðsendingunni.