Deilt um lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi: Vildi kjósa um oddvita og vikið úr uppstillinganefnd

Framboðslisti Miðflokksins í Suðurkjördæmi var samþykktur á félagsfundi í vikunni með 93 % atkvæða. Egill Sigurðsson, sem sæti átti í uppstillinganefnd, segir listann ólöglegan og að Laganefnd Miðflokksins hafi staðfest að ekki væri hægt að víkja sér úr uppstillinganefnd. Hann vildi að kosið yrði um efsta sætið, þar eð þingmennirnir Karl Gauti Hjaltason og Birgir Þórarinsson höfðu báðir lýst yfir vilja til þess að leiða listann.

Framboðlisti Miðflokksins í Suðurkjördæmi til alþingiskosninga 2021, er skipaður eftirtöldum, samkvæmt ákvörðun félagsfundar:

 • Birgir Þórarinsson, Vogum Vatnsleysuströnd
 • Erna Bjarnadóttir, Hveragerði
 • Heiðbrá Ólafsdóttir, Rangárþingi eystra
 • Guðni Hjörleifsson, Vestmannaeyjum
 • Ásdís Bjarnadóttir, Flúðum Hrunamannahreppi
 • Davíð Brár Unnarsson, Reykjanesbæ
 • Guðrún Jóhannsdóttir, Árborg
 • Gunnar Már Gunnarsson, Grindavík
 • Magnús Haraldsson, Hvolsvelli
 • Sigrún Þorsteinsdóttir, Reykjanesbæ
 • Bjarni Gunnólfsson, Reykjanesbæ
 • Ari Már Ólafsson, Árborg
 • Svana Sigurjónsdóttir, Kirkjubæjarklaustri
 • Hulda Kristín Smáradóttir, Grindavík
 • Hafþór Halldórsson, Vestmannaeyjum
 • Hrafnhildur Guðmundsdóttir, Þorlákshöfn
 • Sólveig Guðjónsdóttir, Árborg
 • Eggert Sigurbergsson, Reykjanesbæ
 • Elvar Eyvindsson, Rangárþingi eystra
 • Einar G. Harðarson, Árnessýslu
Egill bóndi Sigurðsson.

Egill Sigurðsson, bóndi og félagi í Miðflokknum, tók sæti í uppstillinganefnd þar eð tveir úr nefndinni voru tilnefndir á listann og véku því úr nefndinni. Hann segir listann hafa verið felldan á jöfnu á síðasta löglega fundi uppstillinganefndar, þann 12. júlí sl., en í kjölfarið hafi honum verið vikið úr nefndinni vegna „lélegra skoðana og afstöðu“ eins og hann orðar það.

Egill kveðst hafa mótmælt þessu og skotið málinu til Laganefndar Miðflokksins sem staðfesti að hann væri réttkjörinn aðalmaður þar til nefndin hefði lokið störfum og afsögn úr slíkri nefnd geti hvorki verið tímabundin né afturkræf. Hann telur því aðför formanns nefndarinnar, Óskars Þórmundssonar, vera ógilda með öllu.

Egill segir að best hefði verið að viðhafa oddvitaprófkjör milli Birgis Þórarinssonar og Karls Gauta Hjaltasonar og láta flokksmenn sjálfa þannig ráða niðurstöðunni. Þá telur hann að þurft hefði fleira ungt fólk á listann, sem og fulltrúa úr Austur-Skaftafellssýslu.