Samtök atvinnulífsins hafa höfðað mál fyrir Félagsdómi gegn Eflingu stéttarfélagi og krafist að boðað verkfall 8. mars nk. verði dæmt ólögmætt. Þess er einnig krafist að Efling verði dæmt til greiðslu sektar í ríkissjóð vegna brota á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.
SA telja atkvæðagreiðslu Eflingar hafa verið andstæða lögum enda verði vinnustöðvun, sem einungis sé ætlað að ná til ákveðins hóps félagsmanna, einungis borin undir þá félagsmenn sem vinnustöðvun er ætlað að taka til. Einnig er vísað til þess að atkvæðagreiðsla Eflingar hafi ekki verið póstatkvæðagreiðsla í skilningi laga enda var atkvæða að mestu aflað með kjörfundum fyrir utan einstaka vinnustaði. Þegar atkvæði eru greidd á kjörfundi þurfa a.m.k. 20% félagsmanna á atkvæðaskrá að taka þátt í atkvæðagreiðslu.
„Athygli hefur vakið að fjölmargir aðrir annmarkar voru á atkvæðagreiðslu Eflingar og hvorki fylgt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur né reglum sem miðstjórn ASÍ hefur sett um fyrirkomulag atkvæðagreiðslna hjá aðildarfélögum,“ segir í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins.
Ekkert bannar slíka nálgun
Efling hefur brugðist við stefnunni með ítarlegri greinargerð sem unnin er af Karli Ó. Karlssyni hrl, lögmanni félagsins.
Þar segir meðal annars að stefna Samtaka atvinnulífsins byggi á túlkun á 2. mgr. 15. greinar laga nr. 80/1938. Málsgreinin fjalli um verkfallsboðun sem einungis tekur til hluta félagsmanna í stéttarfélagi, líkt og raunin er um verkfallið 8. mars. Orðalag greinarinnar segi í að slíkum tilfellum sé „heimilt að taka ákvörðun um vinnustöðvun með atkvæðum þeirra sem henni er ætlað að taka til“ og gildir þá jafnframt krafa um 20% kosningaþátttöku.
„Efling kaus að nýta sér ekki umrædda heimild heldur efna þess í stað til almennrar leynilegrar atkvæðagreiðslu meðal allra félagsmanna sem viðkomandi kjarasamningur tekur til, jafnvel þótt verkfallsboðunin taki aðeins til hluta þeirra. Ekkert bannar slíka nálgun og ekkert styður þá túlkun að umrætt heimildarákvæði leiði af sér skyldu. Illmögulegt er á að sjá annað en að túlkun Samtaka atvinnulífsins á ákvæðinu sé allsherjar misskilningur.
Í öðru lagi halda Samtök atvinnulífsins því fram 20% þátttökuþröskuldur eigi við um umrædda atkvæðagreiðslu sökum þess að hún hafi ekki verið almenn leynileg (rafræn) póstakvæðagreiðsla í skilningi laga. Er vísað til þess að nokkur hluti atkvæða var í reynd greiddur utan hins rafræna kjörfundar. Efling hafnar alfarið þessari túlkun og telur sig hafa haft allan rétt og málefnalegar ástæður fyrir því að bjóða félagsmönnum upp á þann möguleika að greiða atkvæði utan kjörfundar bréflega.
Sú framkvæmd hafði engin áhrif á hina almennu leynilegu rafrænu atkvæðagreiðslu, enda var þess gætt í hvívetna að utankjörfundaratkvæði væru meðhöndluð í samræmi við reglugerð ASÍ um rafrænar atkvæðagreiðslur og aðrar verklagsreglur. Þar sem ákveðinn hluti félagsmanna Eflingar hefur ekki aðgang að tölvu eða notast ekki við rafræn skilríki bar brýna nauðsyn til þess að Efling biði upp á þátttöku í atkvæðagreiðslunni með því að greiða atkvæði utan kjörfundar á pappír. Þessi framkvæmd atkvæðagreiðslunnar var í fullkomnu samræmi við reglugerðir og verklagsreglur ASÍ,“ segir á vef Eflingar.