Der Spiegel: Þjóðverjar læri af kvennabaráttu Íslands

Nístandi vindur næðir um götur Reykjavíkur, ískaldur feykir hann þremur konum á gangi í skjóli húsa við gatnamót, nálægt Faxaflóahöfnum. Hann rífur í og skekur þær svo þær eru við það að fjúka um koll. En íslenskar konur þola að hafa vindinn í fangið, og Ísland hefur vermt efstu sætin í jafnréttismálum heimsins í mörg ár. Við fyrstu sýn virðast konur á Íslandi vera í framlínunni, óeftirgefanlegri og meiri þátttakendur í þjóðfélaginu en annarsstaðar. En uppi á þessu eylandi hafa konur þó einnig þurft að berjast fyrir jafnri tilvist sinni.

Þetta segir i grein þýska fréttatímaritsins Der Spiegel um jafnréttismál og kvennabaráttuna á Íslandi, sem birtist á vef blaðsins í gær. Þar er mynd af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttir, ritara Sjálfstæðisflokksins og alþingismanni, og fer lausleg endursögn á hluta greinarinnar hér á eftir, en hana má lesa í heild sinni hér.

Leynileg uppskrift að jafnfrétti?

Er Ísland kannski með leynilega uppskrift að jafnrétti? Gæti verið þar eitthvað að finna sem Þýskaland gæti hugsanlega lært, af konum og körlum í norðri?

„Við erum sterkar í gegnum hreyfinguna okkar,“ segir sagnfræðingurinn og femínistinn Sara Hrund Einarsdóttir, sem á þessum hvassviðrisdegi leiðir hóp skjálfandi ferðakvenna um Reykjavík, í sólskinsskapi og með úlpuna fráhneppta, til að kynna þeim kvenréttindasögu Íslands. Hún sýnir þeim Alþingishúsið, vegna endurtekinna mótmæla við fordyri þess: #MeToo, „Free-The-Nipple“, og Druslugönguna sem haldin er árlega til að minna á kröfu kvenna um heim allan, hætt verði að kenna konum sem er nauðgað um verknaðinn, með þeim rökum að þær hafi verið gærulega klæddar.

Sara Hrund segir að konur verði láta raddir sínar heyrast, og vera háværar til að boðskapurinn skili sér og þær verði að sýna þrautseigju: „Við gefum aldrei upp,“ því megi treysta, að sögn Söru Hrundar.

Risaviðburður er konur yfirgáfu heimili og störf á kvennafrídaginn

Reyndar virðist sterkur vilji á meðal íslenskra kvenna til að vera pólitískar og standa á rétti sínum. Neistinn kviknaði 24. október árið 1975, þegar yfirgnæfandi meirihluti kvenna ákvað að fara í verkfall.

„Þetta var risaviðburður,“ minnist leikarinn og leikstjórinn Þórhildur Þorleifsdóttir, sem síðar varð fulltrúi Kvennalistans á Alþingi. Yfir 90% kvenna yfirgáfu heimili og störf og fóru út á götur til að mótmæla launamismun kvenna og karla, og þjóðfélagið stöðvaðist.

„Með þessari samstöðu sýndum við hvers megnugar við erum: Samfélagið er stopp án kvenna.“

En svo kom Vigdís Finnbogadóttir.

Er Vigdís var beðin um að bjóða sig fram í forsetakosningunum árið 1980 þráaðist hún við: „Nei, ég get það ekki,“ sagði hún til að byrja með, en í dag hlær hún að þessum orðum sínum. „Þetta var dæmigert kvennasvar.“

Hún rétt svo marði sigur gegn þremur karlframbjóðendum. En í forsetatíð sinni naut hún mikilla vinsælda þjóðarinnar og hlaut endurkjör þrisvar sinnum. Þó forsetaembættið á Íslandi hafi að mestu táknræna stöðu fulltrúa landsins, var það merkilegur áfangi að verða fyrsta konan heims sem gegnir forsetaembætti – verandi jafnframt fráskilin, einstæð móðir með ættleitt barn.

„Framboð mitt braut upp hefðir,“ segir Vigdís sem orðin er 88 ára. Síðan þá er þátttaka kvenna í stjórnmálum sjálfsagður hlutur: „Á Íslandi er kvennabaráttan sterk, við setjum ný viðmið.“

Vigdís er afar stolt af fjölda kvenna á Alþingi, jafnvel þótt hlutfall þeirra hafi fallið verulega eftir síðustu kosningar, úr 47,6% í 38,1%, en það féll einnig í Þýskalandi, í tæplega 31%.

„Því fleiri konur sem taka þátt í pólitískri ákvarðanatöku, því meiri friður verður,“ segir Vigdís Finnbogadóttir. „Konur leiða opin samtöl og samningaviðræður, þær leita samstöðu. Hinir sterku herrar gefa út fyrirmæli og þegja vandamálin í hel.“

Kosning Vigdísar til forsetaembættis hvatningin sem þurfti

Fyrir ungar kvenréttindakonur í landinu varð kosning Vigdísar Finnbogadóttur lyftistöng: „Ef kona er forseti, hvers vegna eru konur þá ekki á Alþingi?“, spurði Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, mannfræðingur og síðar Alþingismaður, sjálfa sig.

Árið 1983 stofnaði hún Kvennalistann, stjórnmálaflokk með öðrum aðgerðasinnum, sem komst inn á þing sama ár, með 5,5% atkvæða. Árið 1987, náði Kvennalistinn meira en tíu prósent atkvæða og átti fulltrúa á þingi inn á tíunda áratug síðustu aldar.

„Við töpuðum atkvæðum fyrir hefðbundnum stjórnmálaflokkum sem fóru að setja málefni okkar á sína dagskrá,“ rifjar hinn fyrrverandi prófessor upp. Eðlilegt framhald: „Við spörkuðum í rassinn á þeim og það virkaði – það er það sem kvennaframboð verður að gera.“

En því hefur þetta ekki gerst í Þýskalandi hingað til? Bara á 20. öld, voru í Þýskalandi meira en tíu kvenréttindaframboð — en ekkert þeirra entist til frambúðar. „Það er skortur á fjármagni, tíma og peningum, sem kemur í veg fyrir þátttöku kvenna í stjórnmálum,“ segir Margot Mueller, talsmaður kvennaframboðsins „Die Frauen“ sem stofnað var árið 1995, en hlaut aðeins 439 atkvæði í almennum þingkosningum árið 2017.

Ungar konur taka heldur þátt í einstökum viðburðum en að eyða tíma í að taka þátt í stjórnmálastarfi, segir Müller. „Þær eru undir þrýstingi um að vera sveigjanlegar og stöðugt til reiðu til frambúðar og það hefur áhrif.“
Einstæðar mæður væru í erfiðleikum og ættu oft ekki peninga til að ferðast á flokksviðburði í öðrum borgum. Erfitt hafi reynst að finna styrktaraðila, því þar sem femínistar séu jafnan vinstri sinnaðir, þá sé lítið um mikla styrki úr íhaldssömu fyrirtækjaumhverfinu.

„Femínismi virðist ekki vera styrkhæfur.“