Dimmur dagur fyrir frelsi á Netinu eða mikilvæg réttarbót?

Umdeild tillaga um umbætur á lögum Evrópusambandsins um höfundarétt ESB fékk meirihluta í Evrópuþinginu, en 348 þingmenn kusu með breytingunum í dag og 274 gegn, 36 sátu hjá. Tilraun til að gera breytingar eða fella niður á grein 11 og 13, sem hafa verið harðlega gagnrýndar af netverjum, mistókst, en þar skeikaði aðeins 5 atkvæðum. Frá þessu greinir þýski miðillinn Der Spiegel. 

„Þessi tilskipun er mikilvægt skref í að leiðrétta aðstæður sem hafa leyft nokkrum fyrirtækjum að græða miklar fjárhæðir, án þess að borga þúsundum lista- og blaðamanna fyrir deilingu og dreifingu á efninu  þeirra. Hún verndar mannslíf og lýðræðið með því að verja fjölbreytta fjölmiðlun, tjáningarfrelsið og hvetur nýsköpunar og tækniþróunar. Það hjálpar að gera internetið tilbúið fyrir framtíðina, að svæði sem gagnast öllum, ekki aðeins hinum sterku fáu,“ segir í greinargerð með tillögunni.

Sía út möguleg höfundarréttarbrot og móðgandi efni

Samningamenn á Evrópuþinginu og frá Evrópusambandsríkjunum komu sér saman um endurskoðun á hugverkarétti. Endurskoðun laganna, sem m.a. hefur verið kynnt og drifin áfram af Evrópuþingmanni Kristilegra demókrata (CDU) í Þýskalandi, Axel Voss, hefur verið talin tímabær í heild.

Lagabreytingunni var ætlað að laga hugverkarétt að breyttum raunveruleika á stafrænni öld — loksins hefur höfundarréttartilskipun ESB frá árinu 2001 mjakast áfram.

Tveir hlutar nýju reglanna hafa verið mjög umdeildir, annars vegar 11. greinin, þar sem bætt er við víðtækri viðbót við höfundarrétt sem mun gilda í öllum ríkjum sambandsins, og inniheldur „hlekkjaskatt“ sem krefst þess að fyrirtæki eins og t.d. Google fái leyfi til að hlekkja á efni frá útgefendum. Grein 13, krefst þess að fyrirtæki eins og Youtube og Reddit séu ábyrg fyrir höfundarréttarbrotum notenda sinna og skuli sía út hugsanlega brotlegt og móðgandi efni.

Til að byrja með var óttast að gert yrði út af við meme-myndir og gif-hreyfimyndir, en gefið hefur verið út að þær séu nú undanskildar reglunum, skv. Business Insider. 

Þetta þýðir að fyrir hverri einustu mynd, myndskeiði eða hljóði þarf vera fullvissa um að ekki sé um óleyfilega notkun á höfundarréttarvörðu efni að ræða. Fyrir slíkt ferli myndu rekstraraðilar vefsíða þurfa að viða að sér öllum upplýsingum um alla rétthafa frá öllum höfundarréttarsamtökum í heimi – sem er óraunhæft – eða nota forrit sem skannar efni sjálfvirkt fyrir birtingu. Slík forrit eru almennt kallaðar hleðslusíur. Ekki er kveðið sérstaklega á um skyldu til að nota slíkar síur, en engin önnur tæknileg lausn er í sjónmáli til að verða við þessum kröfum, eins og er.

Af hverju er gagnrýnin svo mikil?

Mikil andstaða hefur verið við lögin, sérstaklega 13. grein frá baráttufólki fyrir borgararéttindum, atvinnurekendum og stjórnmálamönnum eins og Julia Reda (Píratar) og Dorothee Bär (CSU), sem og frá YouTube og aðdáendum þeirra.

Ár er síðan myndbandaframleiðendur byrjuðu að eiga í erfiðleikum með YouTube út af málinu. Reddit, Wikipedia og PornHub eru á meðal þeirra fyrirtækja sem hafa mótmælt nýju reglunum, 200 evrópskir sérfræðingar hafa mótmælt og Google gaf út að þrátt fyrir umbætur í reglunum muni þær skaða skapandi- og tæknigreinar.

Julia Reda, Evrópuþingmaður Pírata kallar þetta „Dimman dag fyrir frelsi á internetinu.“

Hleðslusíur eru óáreiðanlegar og stofna frjálsu interneti í hættu, segir hún. Hugbúnaður getur ekki þekkt hvort að um höfundarréttarbrot eða leyfilega notkun er að ræða. Of mikið af efni mun síast burt og aldrei ná að birtast opinberlega. Fyrirtæki eins og YouTube geta þvingað minni aðila til að kaupa hleðslusíur. Undanskilin lögunum eru þeir sem reka óhagnaðardrifnar síður eða hafa verið minna en þrjú ár á markaðnum, velta minna en 10 milljón evrum árlega og er með færri en fimm milljóna notendur mánaðarlega.

Lögin geti verið varasöm litlum útgefendum, höfundum og notendum internetsins, að sögn Julia Reda, sem gagnrýnir báðar lagagreinarnar og kallar þær „Árás á frelsi internetsins.“

Mótmæli eru fyrirhugðuð í Þýskalandi og víðar í Evrópu og margir hafa svarið að kjósa aldrei aftur Kristilega demókrata í Þýskalandi undir myllumerkinu #niemehrCDU.

Íslenskir Píratar andsnúnir

Þingflokkur Pírata mun beita sér gegn því að nýsamþykkt höfundarréttartilskipun Evrópusambandsins verði tekin upp í EES- samninginn óbreytt.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Pírötum.

„Höfundarréttartilskipunin sem samþykkt var í dag á Evrópuþinginu felur í sér varhugaverða aðför að hinu frjálsa og opna Interneti. Tilskipunin felur í sér hertar kröfur um notkun og miðlun fréttaefnis á Internetinu og einnig er þjónustuveitum á borð við Facebook, Google, Youtube og í raun meginþorra vefsíðna sem leyfa notendum að hlaða upp efni, gert að ritskoða það efni sem birtist hjá þeim til að tryggja að höfundarréttarvarið efni birtist ekki á síðum þeirra. Slíkar sjálfvirkar síur eru ónákvæmar og tæknin enn ófullkomin sem mun leiða til þess að þjónustuveitendur munu sía út meira magn af efni en minna til að baktryggja sig fyrir lögsóknum. Slíkt er ekkert annað en ritskoðun Internetsins og ljóst að fjölmörg fyrirtæki muni ekki geta staðið undir þessum kröfum nema þau allra fjársterkustu. Mun þetta leiða til þess að minni þjónustuveitur leggjast af og mjög erfitt verður að stofna nýjar þjónustuveitur á Internetinu.

Með því að láta fyrirtæki bera ábyrgð á því efni sem birtist, í stað þess að ábyrgðin sé aðeins notendanna, er verið að takmarka frelsi íbúa Evrópu til að tjá sig. Líkja mætti þessu við að símafyrirtæki á Íslandi yrðu skikkuð til að hlera öll símtöl til að tryggja að aðeins þóknanlegar upplýsingar kæmust á milli manna.

Julia Reda, Evrópuþingmaður Pírata og helsti talsmaður gegn þessari lagasetningu, hefur verið óþreytandi í baráttunni gegn frekari ritskoðun Internetsins og standa Píratar á Íslandi þétt við bakið á henni í þessari baráttu. Er hún fremst í flokki hundraða sérfræðinga og tuga stofnana sem hafa mótmælt þessari vegferð, þar á meðal David Kaye, sérstaks talsmanns Sameinuðu þjóðanna um vernd tjáningarfrelsis, og Tim Berners-Lee, föður veraldarvefsins.

Internetið er ekki staðbundið. Við sem Íslendingar notum mikið af þjónustu, fréttamiðlum og öðru frá fyrirtækjum sem staðsett eru í Evrópu. Það er því nauðsynlegt að berjast gegn hvers kyns ritskoðun og takmörkun á tjáningarfrelsi sem er hornsteinn frjálsra lýðræðisríkja,“ segir þar ennfremur.