Ríkisstjórn Frakklands hefur kallað sendiherra sinn í Róm heim og segir alvarlegt ástand hafa skapast, sem veki spurningar um fyrirætlanir ítalskra yfirvalda gagnvart Frakklandi.
Ástæðan eru „tilefnislausar árásir og svívirðilegar yfirlýsingar“ ítalskra stjórnvalda í garð Frakka undanfarna mánuði.
Frönsk stjórnvöld segja að þessar árásir ítalskra stjórnvalda séu án fordæma frá því að löndin sameinuðust um að vinna að uppbyggingu Evrópusambandsins eftir síðari heimsstyrjöld. Ítölsk stjórnvöld svöruðu frönskum stjórnvöldum með því að krefjast þess að þau hætti að skjóta skjólshúsi yfir ítalska glæpamenn og vísa flóttamönnum frá við landamærin.
Emmanuel Macron forseti Frakklands hefur verið gagnrýndur af tveimur varaforsætisráðherrum Ítalíu, Matteo Salvini frá hægri vængnum, og Luigi Di Maio í 5-stjörnu hreyfingunni, sem komst til valda á síðasta ári.
Í síðasta mánuði lýsti Matteo Salvini, Emmanuel Macron Frakklandsforseta, sem „hræðilegum forseta“. Hann hefur einnig sakað Frakka um að gera ekkert til að koma á friði í Líbýu. Fyrr í þessari viku hitti Di Maio gulvestunga sem vilja bjóða fram í kosningunum til Evrópuþingsins í maí.
Gulvestungar erfiðir
Gulvestungar eru orðnir stærsta áskorun forsetatíðar Macron. Þeir hafa mótmælt efnahagslegum umbótaaðgerðum hans, sem taldar eru til þess fallnar að styðja ríka en þrengja að almenningi. Di Maio hefur einnig kennt Frakklandi um fátækt í Afríku með nýlendustefnu sinni.
Talið er að með því að ráðast á Emmanuel Macron – stuðningsmann Evrópusambandsins – séu þessir tveir aðstoðarforsætisráðherrar Ítalíu að reyna að höfða til kjósenda á Ítalíu fyrir ESB kosningarnar.
Utanríkisráðuneyti Frakka sagði í yfirlýsingu að eðlilegt sé að ríkjum greini á um málefni, en að misnota samskipti ríkja til að afla fylgis fyrir kosningar sé allt annar hlutur.
Salvini kvaðst ekki vilja rífast við frönsk stjórnvöld, og kvaðst glaður tilbúinn að hitta Frakklandsforseta til að styrkja samband þeirra, „almenningi til góðs“.