Dómari hafnaði öllum kröfum á hendur Samherja eftir klukkustund

Þor­steinn Már Bald­vins­son og Kristján Vil­helms­son.

Tvö fyrrverandi samstarfsfyrirtæki Samherja í Namibíu höfðu ekki erindi sem erfiði fyrir þarlendum dómstólum í morgun og vísaði dómari málatilbúnaði þeirra frá eftir aðeins um einnar klukkustundar réttarhöld.

Íslenskir og namibískir fjölmiðlar fjölluðu á dögunum um málið, en það snýst í grunninn um deilur um skipasölu milli fyrrum samstarfsaðila. Tveir fyrrverandi samstarfsaðilar Samherja höfðuðu mál gegn Esju Holding, félagi í eigu Samherja, til að koma í veg fyrir að skip sem er í sameiginlegri eigu þeirra, verði selt. Esja Holding hefur átt í samstarfi við namibísku fyrirtækin í gegnum félagið Heineste Investments Namibía um árabil, en samstarfssamningur fyrirtækjanna rann út í lok síðasta árs. Deilt var um sölu á skipinu Heineste og ráðstöfun söluandvirðis og uppgjöri áhvílandi skulda.

Namibíski fjölmiðillinn, The Namibian, fullyrti að Esja Holding væri sakað um spillingu af fyrrum samstarfsaðilum, en því hafa forsvarsmenn íslenska fyrirtækisins hafnað algjörlega og sagt tilhæfulaust með öllu.

Svo er að sjá að dómari í Namibíu hafi fallist í öllu á málatilbúnað Samherja, því vörnum var skilað til dómsins í síðustu viku og fór málflutningur fram í morgun. Eftir að hafa hlustað á málsaðila í um klukkustund, og beðið kvótahafana um að koma með einhverjar staðfestingar á ásökunum, sem þeir gátu ekki veitt, ákvað dómurinn að hafna öllum kröfum þeirra og dæma þá til greiðslu málskostnaðar.

Samstarfsaðilar Samherja eru sakaðir um að hafa ekki greitt skatt af söluhagnaði sínum.

Í málum sem þessum þá hefur dómurinn heimild til að taka sér allt að tveggja sólarhringa umhugsunarfrest áður en hann dæmir en hann sá augljóslega ekki ástæðu til þess heldur hafnaði öllu strax. Þá dæmdi hann kvótahafana einnig til að greiða málskostnað.

Þess má geta að kvótahafarnir, eða fyrrverandi samstarfsaðilar Samherja, hafa fengið yfir 400 milljónir namibískra dollara út úr samstarfinu frá árinu 2013, til viðbótar við eignarhlut í skipinu, að því er fjölmiðlar í Namibíu hafa greint frá. Áhöld eru um hvort þeir hafa skilað réttmætum skattgreiðslum til ríkisins vegna þessa, en Esja Holding er í fullum skilum.