Dómstólar og Alþingi undir upplýsingalög og uppljóstrarar fái vernd

Nefndin sem kynnti afrakstur vinnu sinnar í dag.

Nefnd forsætisráðherra um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis kynnti afrakstur vinnu sinnar í síðari áfanga nefndarstarfsins á blaðamannafundi í dag í Þjóðminjasafninu. Eiríkur Jónsson, prófessor og formaður nefndarinnar, sá um kynninguna og svaraði spurningum fjölmiðla að kynningu lokinni.

Nefndin skilaði fjórum frumvörpum til ráðherra sem bætast í hóp fimm frumvarpa sem nefndin vann í fyrri áfanga nefndarstarfsins. Nefndin hefur nú lokið verkefnum sínum samkvæmt skipunarbréfi en forsætisráðherra hyggst jafnframt fela nefndinni að gera tillögur til stjórnvalda um hvernig bregðast megi við upplýsingaóreiðu á grundvelli lýðræðislegra grundvallarreglna. 

Frumvörpin eru birt í samráðsgátt stjórnvalda og er efnt til tveggja vikna opins samráðs um efni þeirra.

  1. Frumvarp til laga um breytingu á upplýsingalögum, nr. 140/2012, með síðari breytingum, og öðrum lögum (útvíkkun gildissviðs upplýsingalaga o.fl.).
  2. Frumvarp til laga um vernd uppljóstrara.
  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, með síðari breytingum (lögbann á tjáningu).
  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, með síðari breytingum (endurkröfur blaðamanna og fjölmiðlaveitna)

Frumvörpin heyra undir forsætisráðherra, dómsmálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra.

Í frumvarpi til laga um breytingu á upplýsingalögum felst helsta breytingin sem lögð er til, í því að gildissvið upplýsingalaga verði víkkað út þannig að handhöfum löggjafar- og dómsvalds verði að meginstefnu skylt að fylgja sömu efnisreglum og handhafar framkvæmdarvalds við ákvarðanir um rétt almennings til aðgangs að gögnum í vörslum þeirra.

Jafnframt er það markmið frumvarpsins að kveða skýrar á um skyldu ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands til birtingar upplýsinga úr málaskrám sínum að eigin frumkvæði. Sérstakur ráðgjafi starfi fyrir hönd stjórnvalda með það markmið að auka veg upplýsingaréttar almennings. Þá er lagt til að búið verði þannig um hnútana að æðstu handhafar ríkisvalds geti leitað ráðlegginga um túlkun á siðareglum í trúnaði og skerpt á undanþágu varðandi gögn er varða samskipti opinberra aðila við sérfræðinga í tengslum við réttarágreining. Lagt er til að lög um upplýsingarétt um umhverfismál falli brott en við upplýsingalög bætist sérstakur kafli um meðferð slíkra mála. Þá er lagt til að sett verði strangari tímamörk á afgreiðslu beiðna um aðgang að upplýsingum og við málsmeðferð úrskurðarnefndar um upplýsingamál, auk þess sem ýmsar tilvísanir annarra laga til upplýsingalaga og laga um opinber skjalasöfn verði uppfærðar.

Í nefndinni sátu: Eiríkur Jónsson, prófessor, formaður, Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, varaformaður, Birgitta Jónsdóttir, stjórnarformaður International Modern Media Initiative (IMMI), Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, Sigríður Rut Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður, Elísabet Gísladóttir, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, Þröstur Freyr Gylfason, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Þorgeir Ólafsson, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu (fram til 11. janúar sl. Elísabet Pétursdóttir). Með nefndinni starfaði Oddur Þorri Viðarsson, lögfræðingur í forsætisráðuneytinu.