Þrátt fyrir að mikið sé rætt um jafnrétti kynjanna á Norðurlöndunum, þá eru konur þar orðnar eftirbátar kvenna í öðrum löndum á almennum vinnumarkaði varðandi stöður og laun o.fl. Ímyndin sem Norðurlöndin vilja sýna út á við, ásamt ýmsum aðgerðum stjórnvalda þar til að þvinga fram jafnari stöðu, hefur ekki skilað árangri í samræmi við það, sé miðað við Bandaríkin, Lúxemborg, Ítalíu og jafnvel Rúmeníu. Um þetta er fjallað í grein Breska ríkisútvarpsins.
Ímyndin og raunveruleikinn, þar á milli er munur sem margar konur á vinnumarkaði á Norðurlöndunum gætu kannast við. Í efstu stöðum fyrirtækja sitja jafnan fáar konur og oft eingöngu karlar. Norðurlöndunum er jafnan stillt upp sem glansmynd af jafnrétti kynjanna sem náðst hafi með öflugu velferðarkerfi, sem styðji við útivinnandi foreldra. Leikskólar og langt foreldraorlof, ásamt lagalegum, pólitískum og menningarlegum ramma til að styðja við jafnréttismál.
Einhversstaðar staðnaði frekari árangur
Ýmsir sérfræðingar halda því nú fram að málaflokkurinn hafi staðnað og að markmiðið sé enn langt utan seilingar, sérstaklega í einkageiranum. Mestur árangur hafi náðst í opinbera geiranum, t.d. eru fleiri konur í stjórnendastöðum hjá hinu opinbera í Svíþjóð en karlar og 46% sænskra þingmanna eru konur, en hlutfallið er um 40% á hinum Norðurlöndunum.
En furðufáar konur eru í efstu stöðum í einkageiranum. Aðeins 28% danskra stjórnenda eru konur, 32% í Finnlandi, 36% í Svíþjóð og hæst 40% á Íslandi. Það er samt sem áður minna en í Bandaríkjunum, þar sem konur eru 43% stjórnenda einkafyrirtækja, en Bandaríkin eru aðeins í 51. sæti yfir lönd með mest jafnrétti kynjanna, á meðan Ísland er í því fyrsta, Svíþjóð í þriðja, Finnland í fjórða og Danmörk í því 13.
Svo þegar kemur að launum, þá er launamunur kynjanna á Íslandi, í Danmörku og Noregi svipaður og meðaltalsmunurinn í ríkjum Evrópu, sem er 16%. Í Finnlandi er munurinn 16,7%, á Íslandi 15,5% og í Svíþjóð 12,3%, á meðan Lúxemborg, Ítalía og Rúmenía eru með launamun upp á 5% eða minna. Aðeins um 1% af fjárfestingum í skráðum tæknifyrirtækjum á Norðurlöndunum fari til kvenkyns stofnenda, en karlmenn á Norðurlöndum virðast eiga auðveldara með að ná í áhættufjármagn.
Velferð dragi úr samkeppnishæfu námsvali
Sérfræðingar velta því fyrir sér af hverju þetta stafar, og ýmsar kenningar eru um ástæðurnar. Rannsakendur í Bandaríkjunum og Bretlandi komust þó að því að lönd sem leggja mikla áherslu á jafnréttismál séu með lægra hlutfall kvenna sem fara í nám í vísindum, tækni og stærðfræðitengdum greinum, sem veita örugg og vel borguð störf á markaði. Ástæðan geti legið í því að öflugt velferðarkerfi og velmegun Norðurlandanna valdi því að konur velji sér frekar það sem þær langar að gera, eins og t.d. nám sem tengist umönnunarstörfum eða tungumál. Konur í ríkjum með lægra velferðarstig, minni áherslu á jafnréttismál og efnahagslega óvissu velji heldur nám sem sé öruggara með að veita þeim vel borgaða vinnu, eins og t.d. í tækni og vísindum.