Draumur Framara: Ein glæsilegasta íþróttamiðstöð landsins rís í Úlfarsárdal

Langþráður draumur stuðningsmanna og félagsmanna hins gamalgróna íþróttafélags Fram rætist nú senn, því framkvæmdir hefjast nú í ágúst við eina glæsilegustu íþróttamistöð á landinu — í Úlfarsárdal við Grafarholtið, þar sem höfuðstöðvar félagsins verða til framtíðar.

Borgarráð ákvað á fundi sínum í gærmorgun að heimila  umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir vegna uppbyggingar íþróttamannvirkja í Úlfarsárdal. Kostnaðaráætlun við mannvirklin hljóðar upp á rúma 4,6 milljarða króna. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í ágúst 2019 og að þeim verði að lokið í maí 2022.

Keppnisvöllur Fram verður með yfirbyggðri stúku og í allra fremstu röð.

Framkvæmdirnar eru samkvæmt samningi Reykjavíkurborgar við íþróttafélagið Fram sem samþykktur var í borgarráði í júlí 2017.

Íþróttamiðstöðin mun samanstanda af fjölnota íþróttahúsi, áhorfendastúku fyrir aðalleikvang í knattspyrnu, minni íþróttasölum, félags- og þjónustuaðstöðu fyrir starfsfólk, þjálfara og félagsmenn, búningsrýmum ásamt samkomusal og fundaraðstöðu.

Íþróttamannvirkin munu þjóna félagsmönnum íþróttafélagsins Fram og íbúum Grafarholts og Úlfarsárdals og verða afhent fullfrágengin. Þá verða jafnframt boðnar út framkvæmdir við undirbyggingu og lýsingu fyrir nýjan keppnisvöll Fram í Úlfarsárdal.

Handboltalið Fram hafa lengi verið í fremstu röð. Heimavöllur þeirra verður glæsilegur.

Íþróttasalur ásamt fylgirýmum verður nýttur af skólum í hverfinu.

Íþróttamiðstöðin er austasti hluti bygginga við Úlfarsbraut 122-126 í Úlfarsárdal. Í vestari hluta bygginganna eru leik- og grunnskóli ásamt frístundamiðstöð, menningarmiðstöð og sundlaug sem nú eru ýmist fullbyggð eða í uppbyggingu. Nýlega samþykkti borgarráð að bæta við vatnsrennibraut við nýja útisundlaug sem nú er verið að byggja til að gera laugina fjölskylduvænni.

Gervigrasvöllur Fram og svæðið eins og það lítur út nú.

Heildarstærð íþróttamiðstöðvarinnar verður 7.361 m2 . Við hönnun allra mannvirkja er miðað við kröfur vegna BREEAM umhverfisvottunar sem gefur kost á svokallaðri grænni fjármögnun framkvæmdanna með grænum skuldabréfum. 

Öll mannvirkin eru í miðjum Úlfarsárdal og liggja vel við nærliggjandi byggð með góðum samgöngutengingum fyrir gangandi, hjólandi og akandi.

Fjölbreytt íþróttaaðstaða verður í Úlfarsárdal.