Baldur Borgþórsson, varaborgarfulltrúi Miðflokksins, spurðist fyrir um lokun á annarri akbraut Sæbrautar við Snorrabraut í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkurborgar í dag, en framkvæmdir við lagningu gangstígar og hellulögn hafa valdið lokuninni vikum saman.
Baldur bendir á að lítið virðist miða við verkið og reikna megi kostnað vegna tafa af þessum völdum í milljónum króna, hið minnsta.
Hann segir að lengst af hafi staðið þarna óhreyft eitt bretti af hellum, en nú hafi nokkur bæst við. Á sama tíma valdi lokunin miklum umferðartöfum á svæðinu. Hann spyr hvort þarna séu komnar dýrustu gangstéttarhellur í heimi. Og dýrasta geymslusvæði í heimi.
Fyrirspurn fulltrúa Miðflokksins vegna Sæbrautar hljóðar svo:
Áður óséð ófremdarástand hefur ríkt stóran part dags síðustu mánuði á Sæbraut í austur, allt frá Hörpu að Höfða vegna framkvæmda við gatnamót Sæbrautar/Snorrabrautar.
Undirritaður hefur á liðnum vikum fylgst með framgangi framkvæmda og getur því staðfest að í rúman mánuð hið minnsta hefur þrenging Sæbrautar í eina rein vegna þessa, verið algjörlega óþörf.
Hverfisgata og þvergötur hafa fyrir vikið verið yfirfylltar svo afleiðinga gætir víða.
1. Hvernig má það vera að eitt vörubretti valdi lokun Sæbrautar niður í eina rein svo vikum skiptir?
2. Hvaða tímarammi var settur fyrir verkið?
3. Hvaða tímarammi var settur fyrir heimildir lokunar reina og þar með ófremdarástands?
4. Hvenær lýkur þessu verki?
Undirritaður er ekki einn um áhyggjur af slíku verklagi og hér hefur verið beitt og leggur þessa fyrispurn fram fyrir hönd fjölda borgarbúa sem til undirrritaðs hafa leitað vegna málsins.