Vikuritið The Economist gerir uppgang sósíalismans á tímum þúsaldarkynslóðarinnar að umfjöllunarefni í nýjasta hefti sínu sem kom út í dag.
Þar er vakin athygli á því að margir hafi talið sósíalismann heyra sögunni til eftir fall Berlínarmúrsins í nóvember 1989, enda hafi lok kalda stríðsins og hrun Sovétríkjanna í hugum margra verið tákn um sigur ekki aðeins lýðræðisins heldur aukinheldur hins frjálsa markaðar eins og hann var boðaður í stjórnartíð Reagans Bandaríkjaforseta og Thatcher, forsætisráðherra Breta.
Á Vesturlöndum hafi félagshyggjufólk blandað markaðslausnum við viðteknari kenningar vinstri manna og kynnt hina þriðju leið sem Tony Blair í Bretlandi, Bill Clinton í Bandaríkjunum og Gerhard Schröder í Þýskalandi tóku upp á sína arma.
Þeir lofsungu hinn frjálsa markað, lögðu áherslu á einkavæðingu almannaþjónustu og aukinn einkarekstur. Stjórnmálamenn á borð við Jeremy Corbyn í Bretlandi og Bernie Sanders í Bandaríkjunum þóttu vinstri sinnaðir róttæklingar sem þekktu ekki sinn vitjunartíma.
Nýjasta stjarnan á vinstri vængnum í bandarískri pólitík, Alexandria Ocasio-Cortez var ekki mánaðargömul þegar múrinn féll. Æska hennar var lituð af þriðju leiðinni og ótrúlegum hagvexti í heiminum. Á unglingsárum hennar varð stóra efnahagskrísan í heiminum og nú er hún yngsti þingmaður í sögu Bandaríkjaþings, dáð á vinstri vængnum og tortryggð af þeim hægri, en á það sameiginlegt með Corby og Sanders að gangast fúslega við því að vera sósíalisti.
Sósíalismi þessara stjórnmálamanna getur vel talist alvöru. Þau vilja aukin ríkisafskipti, leggja mikla áherslu á umhverfisvernd og eru óhrædd við að boða róttækar vinstri lausnir á viðfangsefnum nútímans.