EES-samningurinn er efnahagslegur golfstraumur okkar Íslendinga

„EES-samningurinn er efnahagslegur Golfstraumur okkar Íslendinga. Án hans væru lífskjör á Íslandi að öllum líkindum miklu, miklu verri en þau eru í dag,“ segir Gunnar Dofri Ólafsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands, en hann er einn af 272 einstaklingum af yngri kynslóðinni sem keyptu opnuauglýsingu í Fréttablaðinu í dag undir yfirskriftinni: „Ekki spila með framtíð okkar.“

Í auglýsingunni segir að hópurinn styðji áframhaldandi aðild Íslands að EES-samningnum. „Við viljum frjálst, opið og alþjóðlegt samfélag og stöndum saman gegn einangrunarhyggju.“

„Í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi um úrsögn Breta úr Evrópusambandinu og í forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2016 svaf ungt fólk á verðinum með afleiðingum sem eru öllum ljósar. EES samningurinn og annað alþjóðlegt samstarf hefur fært Íslendingum lífsgæði ótal tækifæri sem væri óhugsandi að vera án.

Gunnar Dofri Ólafsson lögfræðingur.

Tækifæri eins og frelsi til að ferðast, stunda viðskipti, búa og mennta okkur í Evrópu og lengi mætti telja. Þetta eru hlutir sem við öll njótum góðs af og lítum í dag á sem sjálfsagðan hluta af okkar dagsdaglega lífi. Því segjum við einum rómi: Ekki spila með framtíð okkar,“ segir í tilkynningu frá hópnum sem notast við myllumerkið #framtidinokkar.

Gunnar Dofri segir á fésbókinni að með auglýsingunni sé búið að afsanna að ungt fólk hafi ekki áhuga á stjórnmálum.

„Ungt fólk hefur svo mikinn áhuga á stjórnmálum, þegar það telur málstaðinn skipta máli, að það er tilbúið að borga fyrir að leggja andlit sitt við skýr og einföld en mikilvæg skilaboð,“ segir hann.