Efast um að Kristrún hafi aðra þingmenn Samfylkingarinnar með sér

Brynjar Níelsson, lögmaður og fv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

„Menn keppast núna við að hrósa Kristrúnu Frosta fyrir kjark í útlendingamálum. Pólitíkin er svo skrítin að það þarf kjark til að segja einfaldan sannleika, sem að auki blasir við öllum. Þegar aðrir en vinstri menn segja það sama og hún eru þeir undantekningalaust rasistar og fasistar.“

Þetta segir Brynjar Níelsson, fv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Facebook, þar sem hann bregst við ummælum Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, sem vakið hafa mikla athygli og Viljinn hefur áður fjallað um.

Brynjar bendir á að samflokksmenn Kristrúnar á þinginu hafi ekki verið á þeirri línu sem hún boðar nú. Þeir hafi þvert á móti „verið fjarverandi þegar kemur að kjarki og horfast í augu við veruleikann. Maður spyr sig hvaða samleið Kristrún eigi með öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar, annað en ást á skattahækkunum, sem hafa barist harkalega gegn öllum tillögum frá dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins til að koma einhverju skikki á þessi mál og samræma regluverkið við önnur lönd. Ekki hefur skort stóryrðin hjá í þeirri baráttu, bæði á þingi og í fjölmiðlum.“

Sjá einnig: Sigmundur Davíð: „Loksins!“

Og Brynjar bætir við:

„Mér finnst Kristrún koma seint með kjarkinn og kann fjarvera hennar vegna barneigna haft áhrif á það, en hún lagði samt ekki orð í belg þegar þingmenn hennar greiddu atkvæði gegn öllum breytingum á lögunum. Kristrún á mikið verk fyrir höndum ef hún ætlar að koma fram með samhenta og trúverðuga Samfylkingu í næstu kosningum. Hún er svo sem ekki eini flokksformaðurinn í þeirri stöðu.“